Mamúska

„Einstök kona í ólgandi veröld“

Mamúska, bók Halldórs Guðmundssonar, um sína pólsku ömmu hlaut í morgun glæsilegan dóm í Fréttablaðinu.

Bókin segir frá kynnum Halldórs af Mamúsku, Marianne Kowalew eins og hún hét réttu nafni, sem hann kynntist í tíðum ferðum sínum á bókamessuna í Frankfurt. Við það tækifæri heimsótti hann alltaf Mamúsku á veitingastaðinn hennar. Þau urðu góðir vinir og hún bauðst til að gerast amma hans. Hann vildi heldur fá að skrásetja viðburðaríka ævi hennar.

Dómi Fréttablaðsins fylgja fjórar stjörnur og í honum segir Magnús Guðmundsson m.a.:

„Halldór er klókur ævisagnaritari og hann fer þá leið að hver og einn kafli bókarinnar nær utan um eina heimsókn til Mamúsku þar sem þau skoða saman ákveðið æviskeið. Það eru reyndar í senn fólgin í því ákveðin vonbrigði og sjarmi og jafnvel persónulýsing hversu treg sú gamla er í taumi við sinn góða ævisagnahöfund. Ítrekað þvertekur Mamúska fyrir það að ræða ákveðna þætti ævi sinnar, bæði persónulega sem og almenna, en Halldór leysir þetta listilega. Fer með lesandann í ferðalag um æskuslóðir hennar og blóði drifna sögu Evrópu. Tengir saman persónulega sögu merkrar alþýðukonu, baráttu stórþjóða, sögu stétta og margt fleira sem veitir lesandanum innsýn í veröld sem var.“

Í niðurlagi dómsins segir Magnús bókina vera skemmtilega ævisögu merkrar konu.

Friðrika Benónýsdóttir, menningarritstjóri Fréttatímans, hafði áður tekið viðtal við höfundinn um bókina og sagði hana þá vera eina eftirtektarverðustu bókina í flóðinu þetta árið og bætir við að „þrátt fyrir að saga Mamúsku sé sterk og ótrúleg og teymi lesandann með sér, þá er það þó samband hins íslenska skrásetja og þessa pólska náttúruafls sem hrífur mann mest við lestur bókarinnar.“

Þess má geta að Halldór verður gestur á fyrsta höfundakvöldi Eymundsson þennan veturinn, ásamt Einari Má Guðmundssyni, miðvikudaginn 28. október kl. 20. Allar frekari upplýsingar má finna hér.

INNskráning

Nýskráning