Einföld saga um týnt barn

„Það var þessi mynd sem vildi ekki fara úr huga mínum,“ segir Lene Kaaberbøl í viðtali við breska dagblaðið Independent í gær, „og hún varð kveikjan að sögunni. Þetta var mynd af litlum dreng í ferðatösku í töskugeymslu.“ Og Lene brosir sínu sykursæta brosi. „Ekki spyrja mig hvaðan þessi mynd kemur og hvernig hugsanagangur minn hljóti að vera úr því mér dettur svona nokkuð í hug.“

Blaðamaðurinn heimsótti nokkra danska glæpasagnahöfunda í tilefni af gríðarlegum vinsældum sjónvarpsþáttanna „Forbrydelsen“ (Glæpurinn) í hinum enskumælandi heimi og fór fyrst til stallsystranna Lene Kaaberbøl og Agnete Friis. Fyrsta bók þeirra, Barnið í ferðatöskunni, er nú á metsölulistum í New York og önnur bókin, Hægur dauði, er væntanleg á ensku innan skamms. Eins og íslenskir lesendur vita er það Rauða kross hjúkrunarkonan Nina Borg sem finnur drenginn í ferðatöskunni og reynir að komast að því hver hann er.

„Að mörgu leyti er þetta einföld saga um konu sem hefur týnt barni og aðra konu sem finnur það,“ segir Lene við blaðamanninn, „en hvernig eiga þær nokkurn tímann að finna hvor aðra?“ Blaðamaðurinn lýsir þeim stöllum svo að Lene sé glaðlynd og svolítið tilfinningasöm en Agnete sé að eigin sögn töff týpa. „Samband okkar minnir mjög á hjónaband,“ segir Agnete. „Það verður gaman að sjá hvað við náum að skrifa margar bækur áður en sambandið verður súrt. Grái fiðringurinn gæti komið yfir okkur hvenær sem væri.“ Það gaf að þeirra mati góða raun að velja hjúkrunarkonu sem söguhetju. „Við vissum að margir góðir höfundar hefðu notað lögreglumenn og blaðamenn sem söguhetjur og okkur fannst ekki úr vegi að gera eitthvað annað,“ segir Lene. „Okkur langaði til að aðalpersónan okkar hefði ástríðu fyrir að hjálpa fólki,“ bætir Agnete við.

Þriðja bók þeirra stallsystra um Ninu Borg er Dauði næturgalans sem kom út á íslensku í vor sem leið. Fregnir hafa borist af því að von sé á þeirri fjórðu eftir fáeina mánuði.

INNskráning

Nýskráning