Draumaþjófurinn eftir Gunnar Helgason verður að fjölskyldusýningu í Þjóðleikhúsinu

Nýr íslenskur barna- og fjölskyldusöngleikur, byggður á geysivinsælli bók Gunnars Helgasonar, Draumaþjófnum sem kom út hjá Forlaginu árið 2019, verður frumsýndur á Stóra sviði Þjóðleikhússins í febrúar. Bókin umbreytist nú í ævintýralega leikhúsveislu fyrir alla fjölskylduna undir stjórn Stefáns Jónssonar. Í sögunni fjallar höfundur um spennandi samfélagið í Hafnarlandi þar sem allir þekkja sinn sess í lífinu: Safnarar safna mat, Njósnarar njósna, Bardagarottur halda óvinum frá og Étarar éta og hafa það gott. Söguhetjan Eyrnastór Aðalbarn Gullfalleg Rottudís – eða bara Eyrdís –-, þarf að taka á öllu sínu og uppgötva hugrekkið innra með sér þegar líf hennar umbreytist á svipstundu og flýr Hafnarland í kjölfar æsilegra atburða.

Það er sannkallað stórskotalið listrænna stjórnenda sem vinna sýninguna; Leikstjórn er í höndum Stefáns Jónssonar sem nú fyrir skemmstu stýrði rómaðri uppsetningu á Sjö ævintýri um skömm. Björk Jakobsdóttur skrifar leikgerðina, Ilmur Stefánsdóttir er leikmyndahöfundur, Filippía Elísdóttir hannar búninga, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson semur tónlist verksins og verður tónlistarstjóri í sýningunni og lýsing er í höndum Björns Bergsteins. Lee Proud er danshöfundur en hann hefur stýrt dansi og hreyfingum í mörgum stórsýningum hér á landi á undanförnum árum. Áhorfendur mega búast við æsispennandi upplifun með litríkum og skemmtilegum persónum, þar sem tekist er á við margt sem skiptir okkur svo miklu máli í dag!

Gunnar Helgason hefur á undanförnum árum sent frá sér fjölda vinsælla barnabóka sem hafa m.a. unnið til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókaverðlauna barnanna. Draumaþjófurinn verður sannkölluð stórsýning þar sem öllu verður tjaldað til og mun vafalítið heilla unga sem aldna um leið og sagan vekur okkur til umhugsunar um mál líðandi stundar.

INNskráning

Nýskráning