Ból og Bannað að drepa hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin

Steinunn Sigurðardóttir hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki skáldverka fyrir skáldsöguna Ból. Steinunn er fyrst kvenna til að hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin tvisvar í flokki skáldverka en áður hlaut hún þau fyrir Hjartastað árið 1995.

Ból er efnismikil saga þrátt fyrir að bókin sé ekki ýkja löng. Viðfangsefnið er ástin í öllum sínum fjölbreyttu myndum, en líka missir, tengsl og tengslaleysi, hvort sem er við sjálfa sig eða aðra, umhverfi sitt og náttúru. Ferðalag söguhetjunnar rammar inn frásögnina sem um leið verður innri ferð hennar og uppgjör við lífið. Það er margt sem kraumar undir, líkt og í náttúrunni sem býr sig undir að gjósa, en ferðinni er heitið heim í unaðsreit fjölskyldunnar, Ból, sem er um það bil að verða náttúruöflunum að bráð. Steinunn vefur blæbrigðaríkan textavef sem heldur lesandanum föngnum allt frá upphafi, sagan snertir við honum og tilfinningarnar malla lengi eftir að lestrinum lýkur. Hið ósagða er oft jafn afhjúpandi og það sem sagt er og, líkt og í fyrri verkum Steinunnar, er leikandi írónía í bland við myndríka ljóðrænu einkennismerki textans. Þótt Ból sé að vissu leyti heimsendasaga ræður fegurðin för og það er hún sem situr fastast eftir,“ segir í umsögn dómnefndar.

Í flokki barna- og ungmennabóka hlutu Gunnar Helgason og Rán Flygenring myndahöfundur verðlaun fyrir bókina Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að drepa. Gunnar vann Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2015 fyrir Stellu-bókina Mamma klikk!

„Í þessari þriðju bók í seríunni um Alexander er tekist á við stórar spurningar eins og titillinn ber með sér. Stríðsátök, sorg og missir eru í brennidepli en sagan hverfist um nýjan félaga Alexanders, Vola frá Úkraínu. Þessi flóknu málefni eru tækluð með húmor og hlýju þar sem sjónarhorn barnsins ræður för og lesandinn verður virkur þátttakandi í vangaveltum Alexanders. Þar tvinnast vel saman alþjóðlegur atburður og áhrif hans á líf venjulegs fólks á átakasvæðinu og hér heima á Íslandi. Þrátt fyrir grafalvarlegt söguefnið einkennist sagan af leiftrandi frásagnargleði, sem fjörlegar myndir Ránar Flygenring ýta svo enn frekar undir. Eins og í fyrri bókunum er persónusafnið fjölbreytt og litríkt og atburðarásin er spennandi. Bannað að drepa er bók sem er skrifuð af skilningi á hugarheimi barna og virðingu fyrir margbreytileika mannlífsins. Hún veitir ekki endilega einhlít svör við öllum spurningum en býður svo sannarlega upp á lifandi samræður barna og fullorðinna sem lesa hana saman,“ segir í umsögn dómnefndar.

Forlagið óskar höfundum innilega til hamingju með verðlaunin!

INNskráning

Nýskráning