Arndís Þórarinsdóttir hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bók sína Kollhnís.
„Kollhnís segir frá því hvernig ungur drengur upplifir umhverfi sitt og fjölskylduaðstæður sem hann ræður illa við eftir að litli bróðir hans greinist með einhverfu. Sagan er skrifuð af miklu stílöryggi og tekur á erfiðum málum með hæfilegri glettni sem gerir það bæði bærilegt og skemmtilegt að fylgjast með því hvernig sýn fullorðinna afhjúpar þá mynd sem drengurinn gerir sér af þeim sem hann dáist að og tengist vináttu- og tilfinningaböndum – í krafti einlægni sinnar. Samtöl eru sannfærandi og styðja vel við hvernig snúið er upp á ranghugmyndir um fullkomnun og velgengni annarra — sem kallast á við þá viðleitni að feta hina beinu lífsins braut að skilgreindum markmiðum með sviðsettri sjálfsmynd á samfélagsmiðlum,“ segir í umsögn dómnefndar.
Forlagið óskar Arndísi innilega til hamingju með verðlaunin!