Arnaldur Indriðason situr sem fastast á toppi franska glæpasagnalistans en bók hans Kyrrþey, fimmta bókin um rannsóknarlögreglumanninn Konráð, kom út í þýðingu Eric Boury í byrjun febrúar.
Bækur Arnaldar hafa komið út í Frakklandi í um tuttugu ár og njóta gríðarlegra vinsælda á meðal franskra lesenda. Í fyrra kom út skáldsagan Sigurverkið sem franskir lesendur hrifust mjög af og breikkaði lesendahópur Arnaldar umtalsvert við þá útgáfu. Franski útgefandi bókanna, Anne-Marie Métailie, er gríðarlega ánægð með viðtökur bóka Arnaldar á frönskum bókamarkaði og velgengni hans á metsölulistum í Frakklandi er til marks um miklar vinsældir hans þar í landi.
Á sama tíma og Arnaldur gerir það gott í Frakkalandi er Lilja Sigurðardóttir að sigra hjörtu finnsku þjóðarinnar. Þriðja bókin í Áróruseríunni, Náhvít jörð, var í síðasta mánuði fjórða mest selda bókin í Finnlandi, í öllum flokkum. Jafnframt náði bókin að vera mest selda hljóðbókin og mest selda rafbókin í Finnlandi í janúar. Marjakaisa Matthiasson þýðir verk Lilju yfir á finnsku.