Arnaldur

Arnaldur hlýtur heiðursverðlaun

Arnaldur Indriðason fékk sérstaka heiðursviðurkenningu þegar Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2015 voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Viðurkenningin er veitt einstaklingi sem þykir með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og þannig stuðlað að jákvæðu umtali um land okkar og þjóð.

Í ræðu sinni um Arnald sagði Vilborg Einarsdóttir, formaður úthlutunarnefndar og stjórnar Íslandsstofu, m.a.:

„Fátt er lítilli þjóð jafn mikilvægt og að lifandi bókmenntir séu skrifaðar á tungu hennar. Bækur sem eru lesnar af öllum þorra manna og verða að umtalsefni þegar tveir eða fleiri hittast á förnum vegi. Menningarlegt sjálfstæði þjóða er byggt á slíkum bókum. Ekki er verra ef bækurnar berast víða um heim og eru þýddar á öll helstu tungumál veraldar. Þannig eru bækurnar hans Arnaldar.“

Vinsældir Arnaldar ná langt út fyrir landsteinana og má finna bækur hans á áberandi stöðum í helstu bókabúðum erlendis. Bækur hans hafa einnig verið þýddar yfir á framandi tungumál s.s. kínversku, tyrknesku, arabísku, katalónsku, króatísku og ungversku.
Í örræðu sinni sagði Arnaldur, hógvær að vanda: „Ég tek við þessum verðlaunum fyrir hönd íslenskra bókmennta.“

Innilega til hamingju elsku Arnaldur!

INNskráning

Nýskráning