Þá hló Skúli

Maraþonlestur í Frystiklefanum

Sunnudaginn 20. desember næstkomandi mun Kári Viðarsson; leikari, listrænn stjórnandi og eigandi Frystiklefans í Rifi; standa fyrir fjáröflun í minningu afa sína, Skúla Alexanderssonar, sem lést fyrr á þessu ári. Fjáröflunin verður til styrktar Sjómannagarðssins á Hellissandi sem var eitt af mörgum ástríðuverkefnum Skúla og verður hún fólgin maraþonhúslestri Kára á ævisögu afa sins, Þá hló Skúli eftir Óskar Guðmundsson, sem kom út nú fyrir skömmu. Bókin hefur fengið frábæra dóma hjá lesendum og gagnrýnendum og því ætti engum að leiðast lesturinn. Segir meðal annars í fjögurra stjörnu dómi gagnrýnanda Morgunblaðsins, Sigurði Boga Sævarssyni:

„Lífsgleðin skín í gegn og það er hvergi dauður punktur í bókinni … greinagóð og lipurlega skrifuð … ritið mun halda á lofti nafni þess manns, sem vildi vel og munaði um í samfélagi sínu.“

Kári mun ekki lesa bókina í undirbúningi fyrir þennan lestur og verður viðburðurinn þannig einnig einskonar endurfundur Kára og afa síns, sem voru mjög góðir vinir og áttu sterkt samband á meðan Skúli lifði.

Lesturinn hefst kl. 9 að morgni og stendur þar til bókin klárast, að öllum líkindum um miðnætti. Allir eru velkomnir að koma og fara eins og þá lystir, drykkir og veitingar í boði og eins og áður segir verður tekið við frjálsum framlögum sem öll renna til Sjómannagarðsins á Hellissandi. Auk þess verður bókin til sölu á staðnum og höfundur hennar, Óskar Guðmundsson, áritar.

INNskráning

Nýskráning