Einar Már

Einar Már og Karlakór Grafarvogs

Óvenjulegur en afar áhugaverður listviðburður verður í Grafarvogskirkju sunnudaginn 6. desember nk. kl. 17.00, þegar fram fara tónleikar Karlakórs Grafarvogs í bland við upplestur Grafarvogsskáldsins Einars Más Guðmundssonar rithöfundar. Á tónleikunum sem hafa yfirskriftina Hundadagar að hausti, verður fléttað saman á skemmtilegan hátt, upplestri Einars Más sem les úr nýútkominni bók sinni Hundadagar og söng Karlakórs Grafarvogs sem flytur lög úr söngleiknum „Þið munið hann Jörund“.

Einar Má Guðmundsson rithöfund þarf vart að kynna. Hann er margverðlaunaður rithöfundur og hefur meðal annars hlotið Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og Norrænu bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar. Bækur hans hafa verið þýddar á fjölda tungumála og hann nýtur slíkra vinsælda í Danmörku að Hundadagar voru gefnir út þar í landi samtímis útgáfunni hér heima.

Hundadagar hafa hlotið einróna lof gagnrýnenda, bæði íslenskra sem og danskra og segir bókmenntagagnrýnandi danska dagblaðsins Politiken m.a. eftirfarandi um Hundadaga: „Einar Már er sögumaður af Guðs náð … meistaraverk!“ Bókmennagagnrýnandi Fréttatímans er ekki síður hrifinn: „… sagan smellur saman sem ein heild. Ansi hreint hressandi, krassandi og skemmtileg heild, meira að segja. Einar Már er hér í essinu sínu … Ég held svei mér þá að Einar Már hafi ekki skrifað betri bók en þessa síðan hann setti síðasta punktinn í Engla alheimsins.“

Það er engin ástæða til annars en að hvetja Grafarvogsbúa sem og aðra landsmenn til að mæta á tónleikana og njóta samspils Karlakórs Grafarvogs og Einars Más þar sem Jörundur hundadagakonungur og saga hans er miðdepill tónleikanna. Óvenjulegt – en um leið afar áhugavert – er að flétta saman sögu og söng með þeim hætti sem þarna verður gert.

Á efnisskrá tónleikanna verða – eins og fyrr sagði – lög úr söngleiknum Þið munið hann Jörund. Einnig mun karlakórinn syngja vinsæl íslensk og erlend lög úr ýmsum áttum.

Karlakór Grafarvogs er fimm ára gamall, en þrátt fyrir ungan aldur hefur kórinn stimplað sig rækilega inn í tónlistarlífið í Reykjavík. Hafa tónleikar kórsins jafnan verið fjölsóttir og gestir skemmt sér hið besta, enda kórinn þekktur fyrir líflega framkomu og skemmtilegt lagaval.

Stofnandi og stjórnandi kórsins er Íris Erlingsdóttir, en um þrjátíu strákar á ýmsum aldri lúta hennar stjórn og þykir fátt skemmtilegra en að gleðja sjálfa sig og aðra með söng og gamanmálum. Kórinn heldur jafnan tónleika í Grafarvogskirkju á hausti og vori, en kórinn kemur einnig fram við sérstök tækifæri við messuhald í Grafarvogskirkju. Píanóleikari kórsins er Glódís Margrét Guðmundsdóttir.

Vart er við öðru að búast en að tónleikagestir eigi eftir að skemmta sér vel á tónleikunum sem fram fara í Grafarvogskirkju klukkan 17 sunnudaginn 6. desember nk. Verði aðgöngumiða er stillt í hóf og rétt er að taka fram að eldri borgarar fá helmingsafslátt af miðaverði við innganginn.

INNskráning

Nýskráning