Gerður Kristný

Drápa drepur niður fæti víða

Fátítt er að íslenskar ljóðabækur komi út í heild erlendis en á bókasýningunni í Frankfurt fyrr í mánuðinum gerðust þau tíðindi að útgefendur í þremur löndum, Svíþjóð, Noregi og í Bretlandi, tryggðu sér útgáfuréttinn á ljóðabók Gerðar Kristnýjar, Drápu.

Drápa segir áhrifaríka sögu í ljóði sem hefst nóttina þegar myrkusinn kemur til borgarinnar. Bókin fékk frábæra dóma hjá íslenskum gagnrýnendum og kallaði Kolbrún Bergþórsdóttir hana „ljóðabók ársins“. Guðrún Baldvinsdóttir hjá Hugrás sagði: „Gerður Kristný slær bæði Stefáni Mána og Yrsu Sigurðardóttur við í óhugnaði í ljóðabálkinum … Myrkustjaldinu er tjaldað yfir borgina, og inni í því gerast hræðilegir atburðir, verri en óhugnanlegustu reyfarar undanfarinna ára hafa tjáð … heillandi verk um hræðilegan heim sem stendur okkur því miður alltof nærri.“

Velgengni Drápu kemur í kjölfarið á gríðargóðum móttökum á fyrri ljóðabók Gerðar, Blóðhófni, en hún kom út í Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Bretlandi eftir tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

INNskráning

Nýskráning