Skrímsli bjóða heim í Gerðubergi

Skrímsli í Gerðubergi

Upplifunarsýningin Skrímslin bjóða heim opnaði nýlega í Gerðubergi við mikla gleði og hafa nú yfir 4000 gestir heimsótt hana. Skrímslasýningin er sérstaklega hugsuð sem tækifæri fyrir fjölskyldur að eiga notalega stund saman, blaða í bók, leysa þrautir og kynnast betur skrímslunum tveimur sem fyrir löngu eru orðin góðkunningjar lesandi barna.

Á sýningunni ganga gestir inn í heim litla og stóra skrímslisins og upplifa veröldina frá þeirra sjónarhorni. Meðal þess sem hægt er að gera er að líta inn á heimili stóra skrímslisins eða heimsækja litla skrímslið, fara um vinalegan skrímslaskóginn eða spennandi skúmaskot skrímslaþorpsins. Víðsvegar í sýningunni er hægt leika sér að hætti skrímslanna: leika með kubba eða liti, glíma við skrímslaskák og aðrar þrautir. Svo þurfa skrímslin auðvitað stöðuga hjálp gesta við að hafa uppi á skrímslakisa sem iðulega týnist í dagsins önn.

Bækurnar um litla og stóra skrímslið eru samstarfsverkefni Áslaugar Jónsdóttur, Rakel Helmsdal og Kalle Güettler og eru skrifaðar á íslensku, færeysku og sænsku. Þær hafa notið mikilla vinsælda síðustu ár, verið þýddar á fjölmörg tungumál og unnið til fjölda viðurkenninga og tilnefninga, svo sem Íslensku myndskreytiverðlaunin Dimmalimm, Barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkur, Bókaverðlaun starfsfólks bókaverslana, Bókaverðlaun barna og unglinga í Svíþjóð, hlotið tilnefningu til Fjöruverðlaunanna, tilnefningu til bókaverðlauna í Frakklandi, tilnefningu til Barna og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og nú síðast var bókin Skrímslakisi tilnefnd á alþjóðlegan Heiðurslista IBBY.

Sýningarhönnun og stjórn er í höndum Áslaugar Jónsdóttur og Högna Sigurþórssonar. Í tengslum við sýninguna verður boðið upp á  föndursmiðjur fyrir fjölskyldur, sjá nánar á heimasíðu og facebooksíðu Borgarbókasafnsins.

INNskráning

Nýskráning