Milan Kundera

Málþing um verk Milan Kundera

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands efna til málþings um verk Milans Kundera laugardaginn 24. október, frá kl. 14:00 til 17:00 í stofu 101 í Odda. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.

Milan Kundera er tékknesk-franskur rithöfundur sem á að baki langan og glæsilegan feril og verður nú að teljast einn virtasti og vinsælasti höfundur samtímans, en verk hans hafa verið gefin út á um það bil fimmtíu tungumálum. Þekktasta verk hans hans er sennilega skáldsagan Óbærilegur léttleiki tilverunnar (1984) en alls hefur hann skrifað tíu skáldsögur, smásagnasafn, leikrit og greinasöfn. Allar skáldsögur hans, smásögur og leikrit hafa verið þýdd á íslensku, auk þriggja greinarsafna af fjórum.

Á málþinginu verða verk Kundera rædd og reifuð frá ýmsum hliðum. Frummælendur eru Jón Karl Helgason prófessor í íslenskum bókmenntum síðari alda, Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur og Torfi H. Tulinius prófessor íslenskum miðaldafræðum.

Sérstakur gestur málþingsins er François Ricard, háskólakennari við McGill háskóla í Montréal í Kanada og mun Friðrik Rafnsson þýðandi ræða við hann um verk Kundera. Ricard hefur skrifað fjölda greina og bóka um verk Kundera, auk þess sem hann hafði umsjón með heildarútgáfu verka höfundarins sem kom út í heimsbókmenntaröðinni Bibliothèque de la Pléiade hjá hinu virta útgáfufyrirtæki, Gallimard, í Frakklandi árið 2011.

Í lokin mun Auður Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur og ritstjóri Hugrásar, veftímarits Hugvísindastofnunar, hefja almennar umræður um verk Kundera.

Ástráður Eysteinsson, prófessor í almennri bókmenntafræði og forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands stjórnar málþinginu.

INNskráning

Nýskráning