Eggert Þór

Sveitin í sálinni komin aftur!

Ein vinsælasta bók síðasta árs, Sveitin í sálinni, hefur loks verið endurprentuð! Bókin hefur verið með öllu uppseld síðan rétt fyrir jól, hlaut fyrir það frábæra dóma í hvívetna og var m.a. tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Sveitin í sálinni fjallar um horfinn heim í Reykjavík – heim sem var lifandi veruleiki þúsunda Reykvíkinga langt fram eftir 20. öld. Margir bæjarbúar voru aðfluttir úr sveit og höfðu með sér á mölina viðhorf og venjur úr átthögunum. Ýmsum þeirra þótti sjálfsagt að halda áfram dálitlum búskap en flestir létu sér nægja að stunda matjurtarækt, þar sem kartöflur voru í öndvegi. Smám saman höfðu steinsteypa og malbik þó betur; skepnuhald og matjurtarækt í stórum stíl létu undan síga og liðu loks undir lok.

Í bókinni eru rúmlega 550 forvitnilegar ljósmyndir sem sýna hvernig ásýnd Reykjavíkur tók stakkaskiptum á 20. öld. Þetta er fróðleg og skemmtileg saga sem varpar ljósi á vöxt og þróun höfuðborgarinnar þar sem saman fléttuðust fornir hættir og ný viðhorf.

Eggert Þór var bráðkvaddur á heimili sínu á gamlársdag síðastliðinn. Við minnumst hans með virðingu og söknuði. Eggert Þór var fræðari af bestu gerð, afskaplega nákvæmur og vandvirkur og honum var einkar lagið að setja fram efni sitt á þann hátt að leikir jafnt sem lærðir hefðu af yndi og fróðleik.

INNskráning

Nýskráning