Bókmenntahátíð

Glænýjar gersemar á Bókmenntahátíð

Nú er hátíð í bæ því á morgun, miðvikudaginn 10. september, verður Bókmenntahátíð 2015 sett! Hátíðin fagnar í ár 30 ára afmæli sínu og verður dagskráin fjölbreytt að vanda. Von er á 15 erlendum höfundum auk þess sem fjöldi íslenskra höfunda kemur fram. Upplestrar, pallborðsumræður, fyrirlestrar, kvikmynda- og málverkasýningar eru hluti af dagskránni, að ógleymdu Bókaballinu! Við hvetjum alla bókaunnendur til þess að kynna sér dagskrána og njóta Bókmenntahátíðar til hins ítrasta. Dagskrána má skoða hér. Ókeypis er inn á alla viðburði, nema annað sé tekið fram.

Í dag gefur Forlagið úr þrjár nýjar bækur eftir höfunda sem væntanlegir eru á Bókmenntahátíð 2015:

Ljósmóðir af Guðs náð – Katja Kettu
Bókinni er e.t.v. best lýst með eftirfarandi setningu frá gagnrýnanda Berlingske: „Lostafull saga af vonlausri ást í finnska hlutanum af forgarði helvítis.“  Hún er rangeyg, fyrirlitin og óskilgetin en hefur einstaka gáfu til að taka á móti börnum. Skelfingarsumarið 1944 hittir hún glæsilegan Þýskan SS-foringja lengst norður í Finnlandi og verður á augabragði heltekin af honum. Smám saman heillast hann líka af henni og þau þola saman – og sundur – hrikalegan óhugnað síðustu stríðsáranna. Finnska skáldkonan Katja Kettu (f. 1978) hefur heillað lesendur víða um lönd með þessari mögnuðu skáldsögu. Fyrir hana hlaut hún tvenn af eftirsóttustu bókmenntaverðlaunum Finna.

Þúsund og einn hnífur – Hassan Blasim
Hassan Blasim er rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður frá Írak sem hefur búið í Finnlandi frá árinu 2004 en skrifar á arabísku. Þessi bók geymir úrval af smásögum hans sem hafa vakið geysilega athygli víða um lönd á undanförnum árum og hefur Blasim verið líkt við svo ólíka höfunda sem Kafka, William Burroughs og töfraraunsæisskáld Suður-Ameríku. Sögusvið þessara áleitnu sagna er Írak nútímans eftir fall Saddams Hussein, þar sem ríkir vargöld og upplausn á flestum sviðum. Sögurnar eru hispurslausar og harkalegar, húmorinn svartur, en í þeim má líka finna ljóðræna fegurð og mannlega nánd.

Fjársjóður herra Isakowitz – Danny Wattin
Þegar níu ára sonur Dannys Wattin heyrir af fjársjóðnum sem langafi hans skildi eftir þegar hann var fluttur í útrýmingarbúðir nasista finnst honum upplagt að leita hans. Ásamt föður Dannys halda þeir feðgar því á slóðir ættfeðranna og rifja í leiðinni upp ævintýri þeirra og sögu stríðsátakanna. Danny Wattin þykir einn hæfileikaríkasti höfundur Svía og stíll hans er bæði skemmtilegur og sérstakur, enda hefur verkum hans verið líkt við sögur Kurts Vonnegut, Mikhaíls Búlgakov, George Orwell og Roalds Dahl.

Auk þessarra þriggja hafa áður komið úr þrjár geysivinsælar bækur hjá Forlaginu eftir höfunda sem væntanlegir eru á Bókmenntahátíð: Alex eftir Pierre Lemaitre, Aftur á kreik eftir Timur Vermes og Mamma segir eftir Stine Pilgaard.

Góða skemmtun!

INNskráning

Nýskráning