Stúlkan í trénu

Ný bók eftir Jussa væntanleg!

Forlagsskrifstofan iðar af spenningi þessa dagana. Ástæðan er að nú um mánaðarmótin er von á glænýrri bók eftir hinn sívinsæla Jussa Adler-Olsen!

Bókin ber nafnið Stúlkan í trénu og er sjötta bókin um Deild Q.

Stúlkan í trénu hefur hlotið mikið lof í Skandinavískum fjölmiðlum síðan hún kom út og fullt hús stiga hjá fjölda dagblaða, t.d. Jyllands-Posten, Ekstra Bladet og BT.

Sagan hefst á því að eldri lögreglumaður hringir í Carl Mørck til að skýra honum frá máli sem hefur plagað hann í sautján ár. Carl vísar honum snarlega frá en daginn eftir er aftur hringt: þá hefur maðurinn stytt sér aldur í sinni eigin starfslokaveislu. Carl og félagar hans hjá Deild Q, þau Assad og Rose, sjá sig tilneydd að halda af stað og komast að því hvað það var sem hann vildi þeim.

Árið 1997 fannst lík ungrar stúlku á Borgundarhólmi. Ekið hafði verið á hana á miklum hraða og hún kastast upp í tré en bílstjórinn stungið af. Málið var rannsakað en ekki upplýst. Habersaat lögreglumaður vildi þó ekki gefast upp og brátt snerist allt hans líf um þetta slys – eða var það kannski ekki slys?

Hinir fjölmörgu aðdáendur Jussa geta því farið að hlakka til en von er á bókinni fljótlega eftir Verslunarmannahelgi.

INNskráning

Nýskráning