Meistari allra meina

Tímamótaverk sem þú verður að lesa

Meistari allra meina – ævisaga krabbameins hefur vakið mikla athygli víða um heim fyrir aðgengilega, ítarlega og trausta umfjöllun um flókið og vandmeðfarið efni og er nú komin út í glæsilegri íslenskri þýðingu.

Hér er saga krabbameins rakin á auðlæsilegan og spennandi hátt. Sagt er frá fjölbreyttum birtingarmyndum þess og viðleitni til lækningar, allt frá elstu heimildum til nýjustu meðferða og uppgötvana. Gerð er nákvæm grein fyrir því hvernig þekkingu á sjúkdómnum hefur fleygt fram, sagt frá sjúklingum, læknum og vísindamönnum, þrotlausum rannsóknum, óvæntum uppgötvunum, misskilningi og mistökum, árangri og sigrum. Bókin er afar yfirgripsmikil og skrifuð af víðtækri þekkingu og einlægum áhuga á viðfangsefninu, en lýsir um leið persónulegri reynslu læknis af að hlynna að krabbameinssjúklingum og aðstandendum þeirra, fræða þá og leiða gegnum sjúkdómsferlið.

Höfundurinn, Siddhartha Mukherjee, er menntaður í læknisfræði og líffræði, starfandi háskólakennari með gráður frá Stanford, Harvard og Oxford og krabbameinssérfræðingur í New York. Bókin hefur unnið til fjölmargra verðlauna og viðurkenninga og hlaut meðal annars Pulitzer-verðlaunin árið 2011 og var valin ein af 100 áhrifamestu bókum síðustu 100 ára af TIME.

Meistari allra meina er stórbrotin en jafnframt auðlesin ævisaga krabbameins og samfélaganna sem það hefur mótað í þúsundir ára.

Bókin er gefin út með styrk frá Krabbameinsfélagi Íslands og Miðstöð íslenskra bókmennta.

Hér er hægt að horfa á fyrirlestur höfundar um bókina.

INNskráning

Nýskráning