Sigrún og Elín

Líkamsvirðing í leikskólana!

Kroppurinn er kraftaverk – líkamsvirðing fyrir börn kom út fyrir ári síðan á Degi líkamsvirðingar þann 13. mars 2014. Hún er skrifuð með það að markmiði að efla jákvæða líkamsmynd barna, umhyggju þeirra fyrir líkama sínum og virðingu fyrir líkömum annarra.

Bókin er hugsuð fyrir börn á aldrinum 3-7 ára en fjölmargir foreldrar, kennarar, afar og ömmur og aðrir fullorðnir hafa haft orð á því að bókin teygi sig mun víðar í aldri og hafi ekki síður átt erindi til þeirra en barnanna.

Undir lok síðasta árs ákvað ung framhaldsskólastúlka, Elín Ósk Arnarsdóttir, að setja af stað fjársöfnun með það að markmiði að gefa öllum íslenskum leikskólum þessa bók. Eins og fram kemur í pistli á blogginu Líkamsvirðing var það hugsjón þessarar ungu konu að öll börn á Íslandi fengju að alast upp við jákvæðar hugmyndir um líkama sinn og virðingu fyrir fjölbreytileika þannig að þeim gæti liðið vel í eigin skinni og forðast neikvæðar afleiðingar slæmrar líkamsmyndar.

Elín hafði samband við Samtök um líkamsvirðingu, fékk þau í lið með sér og nú, hálfu ári síðar hefur safnast nægt fé til að gefa um 60 leikskólum þessa fínu bókargjöf. Auk þess hafa nokkur sveitarfélög, þar á meðal Reykjavíkurborg, Mosfellsbær og Fjarðabyggð, ákveðið að kaupa bókina fyrir alla sína leikskóla.

Leikskólastjórar geta sent óskir um að fá gefins eintak af bókinni Kroppurinn er kraftaverk í netfangið likamsvirding@gmail.com og gildir reglan fyrstur kemur, fyrstur fær. Þeir skólar sem þegar eiga eintak af bókinni, eða eiga von á henni frá sínu sveitarfélagi, eru þó beðnir um að leyfa frekar öðrum að njóta gjafarinnar. Endilega látið orðið berast sem víðast og deilið með leikskólastarfsfólki og foreldrum um land allt!

INNskráning

Nýskráning