Perlurnar

Nýjar perlur í gjafabókaseríunni

Tvær glæsilegar bækur hafa nú bæst í gjafabókaseríu Forlagsins, Perlur Laxness og Perlur úr ljóðum íslenskra kvenna.

Perlur úr ljóðum íslenskra kvenna voru prentaðar tvisvar, 1998 og 1999, en eru löngu uppseldar en ljóðin valdi Silja Aðalsteinsdóttir. Í þessari nýju útgáfu hefur nokkrum ljóðum verið bætt við sem ort voru eftir síðustu útgáfu. Enn er þó beitt sömu aðferð, leitað að ljóðum þar sem skáldkonur lýsa persónulegri og kynbundinni reynslu.

Ljóðin í þessu safni mynda eins konar lífssögu: Byrja á ljóðum um að vera barn, sem síðan yxi upp, yrði unglingsstúlka, kona o.s.frv. Þó að ekki fylli öll ljóðin þessa „konuævi“ gerði þessi rammi valið oft auðveldara, og ekki veitti af. Konum sem yrkja er ekkert mannlegt óviðkomandi eins og hér má sjá og eftir þær er til efni í mörg og margvísleg ljóðasöfn.

Perlur í skáldskap Laxness kom út 1998 og þessi bók er stytt útgáfa hennar. „Sá sem ekki lifir í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni,“ segir séra Jón Prímus í Kristnihaldi undir Jökli. Halldór Laxness lifði í skáldskap í margvíslegum skilningi – og lifir enn. Hér má finna yfir 700 tilvitnanir og sem fyrr er leitast við að hafa tilvitnanir fjölbreyttar og úr sem flestum verkum skáldsins, og þeim er deilt í á fimmta tug efnisflokka.

Gjafabókaserían hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár og stöðugt þarf að endurprenta titla til þess að halda henni við. Bækurnar eru nú orðnar átta talsins, henta við allflest tilefni og eru allar á sama frábæra verðinu.

INNskráning

Nýskráning