Bryndís Björgvinsdóttir

Reykjavíkurborg verðlaunar Hafnfirðingabrandarann

Að venju veitti skóla- og frístundasvið Reykjavíkur barnabókaverðlaun sín á síðasta vetrardag, einni frumsaminni bók og annarri þýddri. Frumsamda bókin sem dómnefnd þótti skara fram úr af útgáfuflórunni 2014 var Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur. Í rökstuðningi dómnefndar var lögð áhersla á að gaman væri að lesa svona framúrskarandi vel skrifaða bók um hversdagslega hluti – hversdagsleg gleðiefni og áhyggjur venjulegra unglinga. Þakkarræða höfundar rímaði vel við þetta því hún hafði einmitt orð á því að bókin væri fyrst og fremst um það sem við veittum sjaldnast eftirtekt, lífinu eins og það væri dags daglega. Bryndís kvaðst jafnframt gleðjast yfir því að fólki fyndist svona gaman að lesa svona sögu um hversdagsleg vandamál hafnfirsks unglings en á því leikur enginn vafi því auk Barnabókaverðlauna skóla- og frístundasviðs hefur Hafnfirðingabrandarinn hlotið bæði Íslensku bókmenntaverðlaunin og Fjöruverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka. Bókin hlaut jafnframt frábæra dóma hjá öllum gagnrýnendum sem um hana fjölluðu og er nýlega komin út í kilju.

Þýdda bókin sem hlaut verðlaunin að þessu sinni var bandaríska ungmennaskáldsagan Eleanor og Park í þýðingu Birgittu Hassel og Mörtu Hlínar Magnadóttur.

INNskráning

Nýskráning