Páskakrimmi

Páskakrimmarnir

Páskarnir nálgast og þá er um að gera að næla sér í góðan krimma fyrir fríið. Undanfarnar vikur hafa komið út þrír ansi hreint hressandi krimmar og þar af tveir alíslenskir! En byrjum á þeim erlenda:

Mamma, pabbi, barn er önnur saga Carin Gerhardsen um félagana á Hammarbystöðinni en sú fyrsta, Piparkökuhúsið, sló rækilega í gegn hjá íslenskum lesendum í fyrra. Bækur hennar hafa nú komið út í fjölda landa og notið mikilla vinsælda.

Þriggja ára stúlka vaknar morgun einn í Stokkhólmi og er alein í íbúðinni. Hún veit að pabbi er í útlöndum en hvar eru mamma og bróðir hennar? Hún er læst inni og enginn kemur að vitja hennar. Og dagarnir líða …

Tvö mál hafna samtímis á borði lögregluforingjans Connys Sjöberg og hann þarf að takast á við þau ásamt félögum sínum á stöðinni. Sextán ára stúlka hefur fundist myrt á salerni um borð í Finnlandsferjunni og óttast er að yngri systur hennar bíði svipuð örlög. Smábarn finnst nær króknað úr kulda inni í runna, rétt hjá líki móður sinnar. Getur verið að þessi mál tengist á einhvern hátt?

Flekklaus er þriðja bók Sólveigar Pálsdóttur en um er að ræða æsispennandi glæpasögu með vænum skammti af sálfræðitrylli og óhugnarlegri undiröldu. Áður hefur Sólveig sent frá sér Leikarann, sem kom út árið 2012, og Hina réttlátu sem kom út árið 2013.

Á miðjum níunda áratugnum ferst ung kona þegar eldur kemur upp í virðulegu fyrirtæki í Reykjavík. Vitni sér tvö ungmenni forða sér á hlaupum en málið er aldrei upplýst.

Áratugum síðar fer lögreglumaðurinn Guðgeir til Svíþjóðar sér til heilsubótar eftir erfið veikindi. Dvöl hans í sveitasælunni í Smálöndum á eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar. Hvaða tengsl hefur sænskur gestgjafi hans við þetta gamla íslenska sakamál?

Að lokum er það hin alræmda Stella Blómkvist. Morðin í Skálholti er áttunda bókin um Stellu Blómkvist sem er harðsnúin, sjálfstæð og herská sem aldrei fyrr.

Hvert snýr kona sér þegar eiginmaðurinn er sakaður um að hafa myrt pabba hennar og bestu vinkonu? Hvað gera ættingjar stúlku sem hverfur sporlaust og lögreglan segir að muni aldrei koma í leitirnar? Hvernig á að skýra fingur sem finnst í sprungu í Snæfellsjökli?

Auðvitað er leitað til Stellu Blómkvist. Hún er lögfræðingur sem braskar með hlutabréf í frístundum, leðurklædd einstæð móðir á silfruðum Benz, með óseðjandi kynhvöt, minnug visku móður sinnar, lítill aðdáandi lögreglunnar og sú sem þeir sem engu hafa að tapa snúa sér til.

Hvert sem þú ferð í páskafríinu, eða jafnvel þó að þú farir alls ekki neitt, ekki gleyma páskakrimmanum!

INNskráning

Nýskráning