Kristín Ómarsdóttir

Flækingurinn fær frábæra dóma!

Flækingurinn, ný skáldsaga Kristínar Ómarsdóttur, hefur þegar hlotið frábæra dóma en nú er vika síðan bókin kom út.

Bókin var til umfjöllunar hjá gagnrýnendum Kiljunnar í síðustu viku og voru þau sammála um ágæti bókarinnar. Friðrika Benónýsdóttir sagði m.a. „Kristín er einstakur höfundur … meistaralega gert … á mörkum óraunveruleika en samt alveg „brútallí“ raunsætt … Kristín er í algjörum sérflokki. Hún gerir þetta á svo snilldarlegan hátt að ég stoppaði hvað eftir annað á meðan ég var að lesa og reyndi að leggja þessar setningar á minnið.“

Þetta tóku þeir Egill og Þorgeir Tryggason undir en sá síðarnefndi sagði m.a. „Með því að vera svona skýr og nákvæm tekst henni að lýsa heimssýn sem er svo óvenjuleg … magnað verk … einstök rödd fyrir mállausan mann.“

Vigdís Grímsdóttir hefur sömuleiðis lofað bókina á Facebook og segir þar: „Ef þú vilt ganga inn í heim sem þú þekkir ekki nema af afspurn, þá lestu bókina! Ef þú vilt sjá mannréttindi í því ljósi að þú verður að krefjast þeirra, þá lestu bókina! Ef þú vilt finna ný tækifæri í íslenskunni, þá lestu bókina! Ef þú vilt skemmta þér innilega og njóta stundanna, þá lestu bókina. Ef þú vilt ekkert af þessu, þá missirðu einfaldlega af miklu. Í alvöru!“

Bókaunnendur ættu ekki að láta þessa frábæru skáldsögu fram hjá sér fara.

INNskráning

Nýskráning