Bonita og Undur

Væntanlegar á fimmtudaginn

Á fimmtudaginn er komið að fyrstu kiljum ársins! Við hefjum útgáfuárið af fullum krafti á tveimur þungavigtarbókum sem ættu ekki að eiga í neinum vandræðum með að heilla lesendur upp úr skónum.

Fyrsta ber að nefna hollensku metsölubókina Bonita Avenue eftir Peter Buwalda:

Siem Sigerius er stærðfræðisnillingur, júdómeistari, djassáhugamaður; vinsæll háskólarektor. Heima snúast kona hans og tvær uppkomnar stjúpdætur í kringum hann eins og fylgihnettir, nýi tengdasonurinn sömuleiðis.

Fullkominn maður. Fullkomið líf.

Ef ekki væri fyrir soninn sem situr í fangelsi fyrir morð. Háskólastelpuna sem hann daðrar við. Og klámsíðurnar á netinu sem hann skoðar í laumi. En þegar rektorinn sér kunnuglegt andlit á slíkri síðu – óþægilega, hrikalega kunnuglegt – fara stoðir heimsins að riða.

Bonita Avenue er ágeng fjölskyldusaga, eldfim og óútreiknanleg – saga um lygar og svik sem leiða til takmarkalausrar ógæfu, sturlunar og hryllings.


Hin kiljan sem kemur út á fimmtudaginn er af allt öðrum toga en það er bókin Undur eftir R. J. Palacio:

Oggi er tíu ára og gerir það sem venjulegir tíu ára strákar gera: hann hámar í sig ís, dáir Stjörnustríð og tölvuleiki, honum finnst hann vera venjulegur – inni í sér. Og hann langar til að vera venjulegur strákur. Að allir hætti að glápa á hann eða hlaupa öskrandi burt.

Mamma hans hefur alltaf kennt honum heima en nú á hann að fara í alvöruskóla í fyrsta skipti og tilhugsunin skelfir hann. Getur hann sýnt bekkjarsystkinum sínum fram á að undir afskræmdu yfirborðinu er hann alveg eins og þau?

Undur er fyndin, mannleg, átakanleg og ótrúlega raunsönn frásögn af vináttu, hugrekki og þrautseigju, sögð með samspili margra radda. Þessi frábæra frumraun R.J. Palacio hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga og komst í efsta sæti metsölulista New York Times.


Sem sagt, tvær áhrifamiklar bækur sem tilvalið er að taka með sér undir teppi í skammdeginu!

INNskráning

Nýskráning