Eggert Þór

Kveðja – Eggert Þór

Árið 2014 var lengst af gott ár en því lauk með hörmulegum ótíðindum; á gamlársdag bárust af því fregnir að einn úr kærum höfundahópi okkar, Eggert Þór Bernharðsson sagnfræðingur, hefði orðið bráðkvaddur á heimili sínu fyrr um daginn.

Eggert Þór hefur tengst JPV útgáfu og Forlaginu allar götur frá því að við gáfum út hið geysivinsæla verk hans, Undir bárujárnsboga, árið 2000. Nú í haust kom svo út ritið glæsilega, Sveitin í sálinni, sem hlaut afar góðar viðtökur, var tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og varð meðal söluhæstu bóka jólavertíðarinnar.

Þessi verk, ásamt tveggja binda Sögu Reykjavíkur 1940–1990, vitna um það hvernig vísindamaður og rithöfundur Eggert Þór var, hann var fræðari af bestu gerð, afskaplega nákvæmur og vandvirkur og honum var einkar lagið að setja fram efni sitt á þann hátt að leikir jafnt sem lærðir hefðu af yndi og fróðleik.

Eggert Þór átti margt eftir óunnið og margt ósagt – og því verður víst að una. Fráfall hans var Forlagsfólki mikið áfall, við erum öll harmi slegin. Við færum eiginkonu hans, Þórunni Erlu- og Valdimarsdóttur, rithöfundi, og fjölskyldunni allri, innilegar samúðarkveðjur. Við minnumst Eggerts Þórs með virðingu og söknuði.

INNskráning

Nýskráning