„Virkilega fyndinn“ galdrameistari

Síðasti galdrameistarinn eftir Ármann Jakobsson er ein þeirra barnabóka sem tilnefndar voru til Íslensku bókmenntaverðlaunanna á dögunum og gagnrýnendur eru sammála um að Ármann segi þar skemmtilega sögu á ríku og læsilegu máli. Í fjögurra stjörnu dómi Höllu Þórlaugar Óskarsdóttur í Fréttablaðinu segir til dæmis að bókin sé „virkilega fyndin – og á svo yndislega lúmskan hátt … Þetta er bók sem ætti að hvetja börn til að lesa því hún ætti að auka orðaforðann til muna.“

Í umfjöllun sinni um bókina í Morgunblaðinu hrósar Árni Matthíasson Ármanni líka fyrir lipran stíl og segir hann færa atburði úr Hrólfs sögu kraka „í þann búning sem hæfir ungum lesendum, býr til persónur og skýtur inn atvikum til að halda lesanda við efnið.“ Árni segir að bókin sé „býsna vel heppnuð“ og gefur henni þrjár og hálfa stjörnu.

Hrifnastur er þó Arnaldur Máni Finnsson sem skrifar um bókina í vefritið Starafugl. Þar segir meðal annars: „Í Síðasta galdrameistaranum er virkilegt tækifæri til að lifa sig inn í ævintýralegan heim og verða hluttakandi í framvindu snjallrar sögu. Það orðfæri og þær áherslur sem Ármann Jakobsson notar er ekki of upphafið (en ævintýra-hátíðlegt á köflum) og fyrir minn smekk er framvindan eðlileg og spennandi.“ Til að lýsa bókinni grípur Arnaldur til orða höfundarins sjálfs: „Svo fólk komi ekki algjörlega af fjöllum vil ég vitna til eigin orða Ármanns um bókina sem hann hefur birt opinberlega. „Sagan gerist á óskilgreindum Norðurlöndum, Danmörku og Svíþjóð kannski en það er ekkert lykilatriði að lesandinn viti það. Hún gerist líka á óskilgreindum tíma fyrir iðnbyltingu í frumstæðu samfélagi sem þó er óðum að siðmenntast. Galdrar eiga þar sinn sess en eru misvinsælir. Aðalpersónan er strákur sem lendir í þeirri stöðu að þykjast þurfa að galdra. Segja má að hann sé fulltrúi nútímamannsins í sögunni, engin hetja en á köflum útsjónarsamur. Sagan hefði þó orðið stutt nema vegna þess að hann fær aðstoð frá völvu einni sem segja má að gegni hinu sígilda „kennarahlutverki“. Svipað og Harry Potter á hann líka eftir að kynnast strák og stelpu sem verða eins konar vinir hans þó að sú vinátta sé kannski svolítið flókin og margt ósagt eins og gengur og gerist í vináttu barna og ungmenna.“ – Svo mörg voru þau orð og gæti ekki hafa lýst þessu betur,“ segir Arnaldur Máni.

Allir gagnrýnendurnir hrósa myndum Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur fyrir að ljá sögunni miðaldablæ.

INNskráning

Nýskráning