Guðrún Eva

Stjörnum prýtt Englaryk

Ein athyglisverðasta og hugljúfasta bók jólabókaflóðsins er Englaryk eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, sem segir frá fermingarstúlkunni Ölmu sem hittir Jesú í sumarfríinu og fer í framhaldinu að huga að þeim minni máttar í samfélaginu og bjóða hinn vangann þegar hún er órétti beitt. Þessi hegðun hennar veldur mikilli sundrung í fjölskyldunni, fermingarfræðslunni og heimabænum Stykkishólmi og að lokum fer fjölskyldan öll í meðferð hjá fjölskylduráðgjafa til að takast á við vandann. Árni Matthíasson gefur Englaryk fjóra og hálfa stjörnu í Morgunblaðinu og segir að hún sé „ekki saga um Jesú og trú, heldur saga um sambönd og samskipti, um allt það sem við segjum til að halda fjölskyldunni saman, og allt það sem við segjum ekki.“ Árni lýkur dómnum með því að segja að bók Guðrúnar Evu sé „bók sem þægilegt er að lesa, fyndin og hjartnæm í senn, en hún vekur mann líka til umhugsunar eins og allar góðar skáldsögur.“

Gagnrýnendur Kiljunnar voru öll á sama máli, en Sigurður Valgeirsson sagði um Englaryk að hún væri „mjög góð bók og erfitt að sjá fyrir að það verði margar betri þetta haustið.“

Fleiri dóma má lesa hér.

Forlagið óskar Guðrúnu Evu til hamingju með frábæra dóma og tilnefningu til Fjöruverðlaunanna í flokki fagurbókmennta. Við spáum því að englarykið muni sáldrast víða um heim.

INNskráning

Nýskráning