Maðurinn sem hataði börn - DV

Manninum sem hataði börn vel tekið

Bók Þórarins Leifssonar, Maðurinn sem hataði börn, hefur fengið gríðargóðar viðtökur hjá íslenskum lesendum og gagnrýnendum. Bókin situr á toppi metsölulista Bókabúðar Máls og menningar í þessari viku og gagnrýnandi DV gefur henni fjórar og hálfa stjörnu í síðasta bókablaði. Þar segir Helga Birgisdóttir að bókin sé „æsispennandi, hrollvekjandi og drepfyndin“. Eftir að hafa rakið söguþráðinn veltir hún upp þeirri spurningu hvort bókin sé eiginlega fyrir börn og svarar sjálfri sér með þeim orðum að „barnabókahöfundar megi fjalla um hvað sem er – svo lengi sem þeir vandi sig og séu meðvitaðir um lesendahópinn.“ Niðurstaða dómsins er þessi: „Í Manninum sem hataði börn tekst Þórarinn Leifsson á við háalvarleg málefni, málefni sem standa íslensku samfélagi nærri og gera þau fyrir vikið enn ógnvænlegri. Sprúðlandi húmor og góð persónusköpun koma hins vegar í veg fyrir að lesandanum líði eins og hann sé að lesa virkilega niðurdrepandi úttekt á samfélagsmeinum Reykjavíkurborgar og bókin er í suttu máli fantaflott og gott og vandað dæmi þess að íslenskar barnabækur eigi framtíðina fyrir sér.“

Fleiri gagnrýnendur hafa heillast af Manninum sem hataði börn. Í fjögurra stjörnu dómi í Morgunblaðinu segir Anna Lilja Þórisdóttir að bókin sé „ekkert bara bók fyrir börn, heldur fólk á öllum aldri sem finnst gaman að veltast um af hlátri við að lesa fyndnar og frumlega bækur.“

Fréttablaðsgagnrýnandinn Halla Þórlaug Óskarsdóttir gaf bókinni líka fjórar stjörnur og sagði meðal annars að bókin væri „hárbeitt en samt svo lúmsk ádeila á íslenskt samfélag sett fram í furðusagnastíl … uppfull af stórskemmtilegum og frumlegum persónum.“

Í umfjöllun sinni á vefritinu Starafugl segir Elín Björk Jóhannsdóttir að beinskeytt ádeilan í bókinni verði aldrei þreytandi vegna þess að höfundur nálgist viðfangsefni sín með glettni: „Myndskreytingar höfundarins auðga söguna og glæða skrautlegar persónurnar enn meira lífi.“

Þá hrósar Sólveig Ásta Sigurðardóttir bókinni á vefritinu Sirkústjaldinu og segir þar meðal annars: „Maðurinn sem hataði börn er stórskemmtilegt verk. Það skilur eftir sig spurningar, bæði um verkið sjálft og það þrekvirki sem höfundi tekst, að semja sögu sem er eins fyndin, gagnrýnin og margslungin og raun ber vitni. Einnig sitja eftir spurningar um hvað telst viðeigandi fyrir börn annars vegar og fyrir fullorðna hins vegar.”

Að lokum má geta þess að Maðurinn sem hataði börn þótti besti bókartitill ársins hjá álitsgjöfum Fréttablaðsins um helgina. Þetta er bók sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Fantaflott bók fyrir fólk á öllum aldri!

INNskráning

Nýskráning