Saga þeirra, sagan mín

Heillandi aldarspegill

Saga þeirra, sagan mín – Katrín Stella Briem eftir Helgu Guðrúnu Johnson fær húrrandi góða dóma þessa dagana. Í Morgunblaðinu laugardaginn 15. nóvember fékk hún fjögurra stjörnu dóm hjá Guðmundi Magnússyni sagnfræðingi sem sagði bókina vera „áhrifamikla ævisögu“ og að Helga Guðrún hefði haft „góða sýn yfir söguefnið og sterk tök á frásögninni, hrasað hvergi í útúrdúrum eins og stundum vill gerast þegar höfundar hafa úr miklu efni að moða“, því sé Saga þeirra, sagan mín „afar áhugaverð bók“.

Í síðasta tölublaði Vikunnar sagði Steingerður Steinarsdóttir að Saga þeirra, saga mín væri „… bók sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara … frábærlega skrifuð og svo spennandi að vart er hægt að láta hana frá sér. Fyrir utan að vera persónuleg saga þriggja einstaklinga er bókin frábær aldafarslýsing og segir ótrúlega margt um kjör kvenna fyrr og nú.“

Egill Helgason sagði svo í Kiljunni að þessi stóra og mikla saga væri heillandi aldarspegill og í spjallþætti Loga Bergmanns, Logi í beinni, sagði viðmælandinn Egill einnig að hann hefði hugsað sér að gefa tengdamömmu sinni hana í jólagjöf! Vonandi missti hún af þeim þætti.

Í þessari mögnuðu ævisögu Katrínar Stellu er einnig sögð saga móður hennar, Ingibjargar Stellu Briem og ömmu hennar, Katrínar Thorsteinsson. Þannig er Saga þeirra, sagan mín mikil kynslóða- og örlagasaga sem hefur vakið verðskuldaða athygli og stendur fyllilega undir þessum góðu dómum.

INNskráning

Nýskráning