Gerður Kristný í Hannesarholti

Þriðjudaginn 18. nóvember kynnir Gerður Kristný nýútkomna ljóðabók sína, Drápu, og segir frá tilurð hennar á bókmenntakvöldi í Hannesarholti við Grundarstíg.

Í Drápu er sögð áhrifamikil saga í ljóði sem hefst nóttina þegar myrkusinn kemur til borgarinnar. Bókin hefur fengið frábærar viðtökur í fjölmiðlum. Í fjögurra stjörnu dómi í Fréttablaðinu segir Friðrika Benónýsdóttir meðal annars: „Það er þó vel áhættunnar virði að sökkva sér ofan í heim Drápu. Gerður Kristný fer hér á kostum í því sem hún gerir best; að tálga ljóðformið þannig að hver mynd verði eins og svipuhögg og leika sér með möguleika tungumálsins þannig að úr verður ný og óvænt upplifun á nánast hverri síðu.“


Guðrún Baldvinsdóttir skrifar um ljóðabálkinn í vefritið Hugrás og segir Gerði slá helstu glæpasagnahöfunda landsins út í óhugnaði þótt orðin séu færri: „Myrkustjaldinu er tjaldað yfir borgina, og inni í því gerast hræðilegir atburðir … lesandinn neyðist til þess að lesa oftar en einu sinni … óhugnaðurinn hefur einkennilegt aðdráttarafl.“ Niðurstaða Guðrúnar er að Drápa sé „heillandi verk um hræðilegan heim sem stendur okkur því miður alltof nærri.“
Þá fjallar Jakob S. Jónsson um bókina í Vikunni og segir Drápu standa undir nafni: „Gerður Kristný slær á þyngri strengi og myrkari en einatt áður í sínum skáldskap. En á móti hinu myrka og drungalega kemur léttleiki og fegurð tungumálsins, sem Gerður hefur svo sannarlega á valdi sínu.“

Ljóð Gerðar Kristnýjar hafa heillað lesendur um allan heim og fyrir þau hefur hún meðal annars fengið Íslensku bókmenntaverðlaunin og verið tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Aðgangseyrir á ljóðakvöldið er 1.000 kr. og hægt er að kaupa miða hér. Drápa verður til sölu á staðnum ásamt Ljóðasafni Gerðar sem kom út í vor.

INNskráning

Nýskráning