Bryndís Björgvinsdóttir

Góður brandari

Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur fær fjögurra stjörnu dóm hjá Árna Matthíassyni í Morgunblaðinu í dag. Árni segir að aðalsöguhetjan, Klara, sé „einkar skemmtileg söguhetja, heilsteypt, trúverðug og bráðskörp stelpa … og fyrirtaks sögumaður.“

Árni tekur efni bókarinnar skemmtilega saman: „Ef lýsa á bókinni í stuttu máli þá snýst hún um einelti, gamalt einelti og nýtt, og það að það séu, sem betur fer, fæstir eins og fólk er flest. Það kemur líka vel fram í henni hve mikilvægt það er að elska og virða gallagripina í kringum sig og ekki síst gallagripinn sem maður er sjálfur. … Hafnfirðingabrandarinn er kannski ekki eins og bókin sem Klara segist kannski ætla að skrifa um Ingimar frænda sinn, margra vasaklúta sorgar- og átakasaga – nei, þetta er stórskemmtileg bók sem segir sögu af stórskemmtilegri stúlku. Víst er hún býsna löng, rúmar 400 síður, en ekki fannst mér hún of löng.“

Þórdís Gísladóttir tekur í sama streng á vefritinu Druslubókum og doðröntum. Hún lýsir aðalpersónunni skemmtilega: „Hún er ör og taugaveikluð, sælgætissjúk, feimin, oft svolítið einmana og dálítið klaufaleg á margan hátt, en hún er líka með húmor fyrir sjálfri sér sem er nú ekki sjálfsagt mál þegar unglingar eru annars vegar.“ Þó viðurkennir hún að foreldrar Klöru hafi orðið hennar uppáhaldspersónur: „Þau eru roskin og kunna hvorki að leigja DVD-myndir né panta pítsur og þau gefa henni yfirleitt glataðar jólagjafir. Foreldrarnir endurspegla svo sniðuglega hvað heimurinn hefur breyst rosalega mikið síðustu áratugina. Ég ólst sjálf upp í Hafnarfirði ekkert mjög löngu á undan Klöru og er af millibilskynslóð milli hennar og foreldranna, en mér finnst mjög margt í sögu Klöru komið töluvert langt frá mínum unglingsárum í umræddu bæjarfélagi.“

Þórdís hvetur unglinga til að lesa söguna en ekki síður fullorðið fólk því allir munu finna eitthvað við sitt hæfi í henni. „Góðar og áhrifaríkar barna- og unglingabækur má gjarna lesa á mörgum plönum og ekki síst þess vegna er Hafnfirðingabrandarinn bók fyrir fólk með misjafnan bókmenntasmekk og ólík áhugamál. Unglingar ættu auðvitað að lesa Hafnfirðingabrandarann en ég mæli samt ekki síður með bókinni fyrir miðaldra og aldraða, hvort sem viðkomandi kunna eða kunna ekki að leigja myndir og panta pítsur.“

INNskráning

Nýskráning