Maðurinn sem hataði börn

Þórarinn Leifsson með tvennu

Á laugardaginn ætlar Þórarinn Leifsson að fagna útgáfu bókar sinnar Maðurinn sem hataði börn í Máli og Menningu á Laugavegi 18, kl 16.

Maðurinn sem hataði börn kom í allar betri bókabúðir fyrir nokkru síðan og hefur hlotið frábæra dóma hjá gagnrýnendum stórblaðanna. Því er fyllsta ástæða til að skála í útgáfuboðinu á laugardaginn. Það er höfundi mikil ánægja að blása til boðsins, loksins kominn heim í stutt stopp frá Berlín. Í tilefni dagsins verður bókin sérstöku kynningarverði og að sjálfsögðu verður hægt að fá áritun höfundar – sem er ólíkt félagslyndari en Maðurinn sem hataði börn. Ekki verður um mikla dagskrá að ræða. Höfundur segir stuttlega frá bókinni og lesa örstuttan kafla. Þó fá að hljóma nokkrir frumsamdir tónar úr tónlistinni sem Jónas Sigurðsson hefur samið fyrir leikritið Útlenski drengurinn, eftir þennan sama höfund, en það verður frumsýnt daginn eftir útgáfuboðið í Tjarnarbíói, nánar tiltekið sunnudaginn 16. nóvember. Miðar á leikritið verða til sölu á sérstökum afslætti.

Útlenski Drengurinn í uppsetningu leikhópsins Glennu. Verkið hæfir áhorfendum frá 10 ára aldri. Leikritið er gamanleikur með alvarlegum undirtóni. Það fjallar um Dóra litla sem er vinsælasti strákurinn í bekknum en eftir að vera settur í skyndipróf í lestri hjá aðstoðarskólatjóranum snýst líf hans algerlega á hvolf. Röð undarlegra og óútskýranlegra atburða verður til þess að hann missir ríkisfangið og er kyrrsettur á skólabókasafninu. Enginn skilur hann lengur og hann er sviptur grundvallar mannréttindum. Verkið veltir upp spurningum um ríkisfang, einelti og þá tilfinningu að upplifa sig utangarðs.

Leikarar eru: Halldór Halldórsson (Dóri DNA), Þorsteinn Bachmann, María Heba Þorkelsdóttir, Magnea Björk Valdimarsdóttir, Arndís Hrönn Egilsdóttir og Benedikt Karl Gröndal.
Leikstjóri: Vigdís Jakobsdóttir

INNskráning

Nýskráning