Mynd: Morten Holtum

Bókmenntaviðburður ársins 2014 – komdu í Norræna húsið

Yahya Hassan hristi rækilega upp í dönsku menningarlífi þegar hann sendi, átján ára gamall, frá sér ljóðabók sem ber nafn hans og lýsir uppvexti í skugga gegndarlauss ofbeldis, bókstafstrúar og hræsni.  Hann er ríkisfangslaus Palestínumaður frá Árósum og lýsir veröld upptökuheimila, úrræða, félagsráðgjafa, lögregluafskipta og fangelsa. Alla þessa aðila lætur hann hafa það óþvegið en þó fyrst og fremst sjálfan sig. Þremur mánuðum eftir að bókin kom út hafði hún selst í yfir 100.000 eintökum, en einnig valdið usla í dönskum stjórnmálum og aflað höfundi sínum bæði líkamsárása og líflátshótana svo hann kemur ekki lengur fram nema í fylgd lífvarða.

Í byrjun nóvember gefur Forlagið bók Hassans út í þýðingu Bjarka Karlssonar og af því tilefni sækir skáldið okkur heim og kemur fram á dagskrá í Norræna húsinu, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og á Airwords.

Opin dagskrá verður í Norræna húsinu miðvikudaginn 5. nóvember kl. 20. Þar kynnir Bjarki þýðingu sína og Haukur Ingvarsson spjallar við skáldið um bókina. Þá les Yahya Hassan úrval úr ljóðunum og verður íslenskri þýðingu þeirra varpað á vegg. Að dagskránni lokinni verður bókin til sölu og hægt verður að biðja Hassan um áritun.

Dagskráin er FB er haldin í samstarfi við Félag dönskukennara og er ætluð menntaskólanemum á höfuðborgarsvæðinu, einkum þeim sem langt eru komnir í dönskunámi.

Að kvöldi 6. nóvember kemur Yahya Hassan fram á bókmenntadagskrá Airways, Airwords, í hópi úrvalsskálda, innlendra og erlendra.

INNskráning

Nýskráning