Demantaradgatan

Bófinn næst alltaf að lokum!

„Maja og Lalli eru ekki bara vinir heldur líka samstarfsfélagar. Þau stofnuðu Spæjarastofu Lalla og Maju. Þú veist ef til vill ekki hvað spæjari er? Jú, spæjari er eins og lögreglumaður, nema í venjulegum fötum. Spæjari rannsakar og fylgist með grunsamlegum persónum, tekur myndir og notar kíki. Að lokum næst bófinn.“

Það er með gleði og stolti sem við dreifum nýjustu barnabókinni okkar í dag, en það er Demantaráðgátan, fyrsta sagan um Spæjarastofu Lalla og Maju. Sögurnar eru margverðlaunaðar, þær hafa verið kvikmyndaðar og settar upp bæði sem leikrit og ópera – já, ópera! Höfundurinn, hinn sænski Martin Widmark, hefur í heimalandi sínu selt meira en þrjár milljónir barnabóka auk þess að bækur hans hafa verið þýddar á yfir tuttugu tungumál. Nú kemur hann í fyrsta sinn út á íslensku, í lipri þýðingu Írisar Baldursdóttur.

Börn sem eru á háma-í-sig-bækur-aldrinum munu kætast mjög yfir þessari sprúðlandi fyndnu og snjöllu spæjarasögu. Stórt letur, litríkar myndir og grípandi söguþráður gera bókina sérlega aðgengilega fyrir þá sem vilja þjálfa lesturinn – en sannarlega má lesa líka hana upphátt með allri fjölskyldunni og keppast þá við hver er fyrstur að ráða gátuna! Demantaráðgátan hentar bæði spæjurum og lestrarhestum á aldrinum 6-10 ára.

INNskráning

Nýskráning