Bókapartý

Vika útgáfuboðanna!

Nú fljúga bækurnar hver á fætur annarri út í heiminnog því ber að fagna! Vikan er þéttsetin útgáfuboðum hinna ýmsu höfunda svo ekki er úr vegi að gefa dálítið yfirlit:

Miðvikudagur:
Bryndís Björgvinsdóttir fagnar spánýrri bók sinni Hafnfirðingabrandarinn með 90s þemaboði í salarkynnum KEX Hostel við Skúlagötu. Hún lofar vel ígrunduðum 90s lagalista og Nirvana-köku svo þessu ætti enginn að missa af. Boðið hefst kl. 17.

Fimmtudagur:
Ófeigur Sigurðsson býður til samkvæmis á hinu gullfallega Hlemmur Square þar sem nýrri bók hans, Öræfi, verður fagnað. Bókin er magnaður óður um öræfi landsins, öræfi mannssálarinnar, öræfi íslenskrar menningar og vitnar um djúpan skilning höfundar á íslenskri náttúru og mannlífi í gegnum aldirnar.

Föstudagur:
Í Saga þeirra, sagan mín skráir Helga Guðrún Johnsson ótrúlega kynslóðasögu þriggja sjálfstæðra kvenna og sviptir hulunni af sögum sem hafa legið í þagnargildi alltof lengi. Útgáfu bókarinnar verður fagnað í Gunnarshúsi kl. 17.

Laugardagur:
-Útgáfuhóf Knúsbókarinnar eftir Jónu Valborgu Árnadóttur og Elsu Nielsen fer fram í Eymundsson Kringlunni milli 14 og 16. Afskaplega huggulegri og knúsvænni stemmningu er lofað!

-Gunnar Helgason blæs til bráðfjörugs útgáfuboðs í Eymundsson Smáralind kl. 14 í tilefni af útgáfu síðustu bókarinnar í Fótboltasögunni miklu en hún ber heitið Gula spjaldið í Gautaborg. Fótboltakeppni, happadrætti og Gunni les úr bókinni!

-Í tilefni af útgáfu bókar Kristínar Eiríksdóttur verður efnt til opnunar í Týsgallerí kl. 16. Útgáfan er með glæsilegasta móti en í henni má finna bæði ljóð og myndlist Kristínar. Um leið og útgáfu bókarinnar er fagnað verður opnuð sýning á verkunum úr bókinni.

-Halldór Armand sendi frá sér einn óvæntasta smell síðasta árs, Vince Vaughn í skýjunum,  og snýr nú aftur með sína fyrstu skáldsögu, DRÓN, sögu sem sprengir upp íslenskan samtíma. Hann býður í útgáfuhóf í bókabúð Máls og menningar, Laugavegi, kl. 17.

Bókaunnendur ættu því að hafa nóg fyrir stafni þessa vikuna! Komið og fagnið með höfundum þessarra frábæru bóka!

INNskráning

Nýskráning