Sofi Oksanen

Kveðja frá Sofi Oksanen

Skáldsagan Þegar dúfurnar hurfu eftir Íslandsvininn Sofi Oksanen kom út á dögunum og hefur hlotið frábæra dóma auk þess að vera bók vikunnar á Rás 2 í síðustu viku. Að því tilefni sendi hún Íslendingum kveðju sem lesin var á upplestrarkvöldi helguðu bókinni í Efstaleiti.

„Ég sendi öllum íslenskum lesendum hlýjar kveðjur. Þessa stundina er ég á leiðinni á bókamessuna í Frankfurt og allir muna eftir árinu þegar Ísland var heiðursgestur hennar. Ótrúlega margir eru á þeirri skoðun að framlag ykkar hafi verið eitt það besta frá upphafi. Það er menningarútflutningur í frásögur færandi! En Íslendingar virðast kunna þá list einkar vel.

Ísland og Eistland eiga það sameiginlegt að þekkja hvað það þýðir fyrir þjóð og tungu hennar að vera undir útlendri stjórn. Að vera háð voldugu erlendu ríki er ævinlega hættulegt fyrir mál og menningu smáþjóðar. En það er ekki auðvelt að eyðileggja þjóð með sterka bókmenningu og ég man að ég heyrði það sagt þegar ég var á Íslandi að menningin væri ykkar besta vörn. Því er ég hjartanlega sammála. Auðvitað er íslensk bókmenntasaga mun lengri en eistnesk en ef Eistland hefði ekki átt sterka bókmenningu þegar Rússar hernámu það fyrst þá stæði Eistland sig ekki betur núna en flest önnur fyrri leppríki eftir fall Sovétríkjanna.

Saga íslenskra bókmennta er einstæð og samtímahöfundar ykkar standa sig firna vel líka. Ég tek Ísland oft sem dæmi þegar Finnar kvarta undan vandamálum lítilla málsvæða. Íslendingar eru fyrirmynd annarra smáþjóða með eigið tungumál: smáþjóð getur verið voldug menningarþjóð, jafnvel á alþjóðlega vísu, sama hvað fáir tala tungumálið.

Ég sendi líka íslenskum kollegum mínum kveðju sem lesandi þeirra. Ég verð alltaf stolt þegar ég sé íslenskar bækur í bókabúðum stórþjóða. Ég er viss um að dæmi Íslands gagnast öðrum smáþjóðum í baráttunni við bókaútgefendur stórþjóða sem eru oft smeykir við að kaupa bækur frá litlum málsvæðum til útgáfu. Íslendingar hafa sýnt að smáar þjóðir geta skapað sterka menningu sem fólk getur skilið og notið um víða veröld.“

Þegar dúfurnar hurfu hefur fengið frábæra dóma síðan hún kom út en hér að neðan má finna úrval þeirra dóma:

„Ég var algjörlega bergnumin af þessari bók! … sat ofsalega lengi í mér … Virkilega skemmtileg … betri en Hreinsun.“
Friðrika Benónýsdóttir / Kiljan

„Mögnuð frásögn … Oksanen liggur mikið á hjarta hérna. Söguefni liggur þungt á henni.“
Egill Helgason / Kiljan

„Oksanen nýtur þess að lýsa nöturleika „hernámsins“ eins og Eistar kalla þau árin … Betri en Hreinsun, finnst mér.“
Þorgeir Tryggvason / FB

INNskráning

Nýskráning