Hannah Kent

„Stórbrotin skáldsaga, sjaldgæf lestrarupplifun“

Skáldsagan Náðarstund eftir Hönnuh Kent, sem setið hefur í efsta sæti metsölulista Eymundsson undanfarnar tvær vikur, hlaut í gær magnaðan dóm hjá Kvennablaðinu.

Í umfjölluninni segir Þráinn Bertelsson meðal annars: „Það rennur fljótlega uppfyrir mér að það sem ég er að lesa er alvöruskáldverk af hæsta gæðaflokki í frábærri þýðingu … Á síðum bókarinnar er lesandinn leiddur inn í harðan fátæktarheim íslenskrar alþýðu á fyrrihluta 19. aldar. Það er vitur og vandaður og velskrifandi höfundur sem leiðir mig og veitir mér innsýn í líf og tilfinningalíf Agnesar og rekur smámsaman sögu hennar, sögu fátæktar og umkomuleysi manneskju sem í rauninni á aldrei neitt nema lífið og tilfinningarnar í brjósti sér – og stendur nú frammi fyrir því að hún verði svipt þessu lífi. Við lesturinn kynnist ég og öðlast samúð með persónu sem ég þekkti ekki áður en mun búa í hugskoti mínu uppfrá þessu.“

Þýðing Jóns St. Kristjánssonar fær sömuleiðis undursamlega umsögn: „Þýðingin er svo fallega og nostursamlega gerð að unun er að lesa og eiginlega fannst mér að bókin hlyti að vera frumsamin á íslensku. Þýðandinn nær að nota nútímaíslensku sem hann gæðir andblæ nítjándu aldar, og ber hugkvæmni, vandvirkni og stílgáfu Jóns St. Kristjánssonar fagurt vitni.“

Að lokum skrifar Þráinn: „Náðarstund er bók sem vakti með mér hugsanir og tilfinningar sem aðeins örfáar bækur af þeim þúsundum sem ég hef lesið hafa gert. Þetta er bók sem ég legg frá mér fullur þakklætis fyrir sjaldgæfa lestrarupplifun, bók eftir vandaðan og hæfileikaríkan höfund sem ég mun svo sannarlega fylgjast með í framtíðinni.“

Ekki amalegt það! Við mælum með að sem allra flestir njóti þess að lesa Náðarstund!

Hér má svo lesa dóminn í heild sinni.


INNskráning

Nýskráning