Baldur A. Kristinsson skrifar glöggan og skemmtilegan ritdóm um þýðingu Stefáns Steinssonar læknis á Rannsóknum Heródótusar í Morgunblaðið í dag og gefur henni fullt hús stjarna. Baldur segir: „Heródótos ritaði Rannsóknir sínar á miðri fimmtu öld f.Kr. Þær eru elsta ritið sem talist getur falla að hugmyndum okkar um sagnfræðilegt viðfangsefni og efnistök. … Það er því ekki að ástæðulausu að hann er oft kallaður »faðir sagnfræðinnar«, enda hefur heitið á riti hans, Historiai (sem einfaldlega þýðir »rannsóknir« á grísku), verið tekið upp sem alþjóðaheitið fyrir sjálfa fræðigreinina sem hann stofnaði.“
En Heródótus er samt barn síns tíma. „Hann hikar ekki við að skýra suma atburði út frá vilja guðanna og virðist oft treysta um of frásögnum heimildarmanna sinna af undarlegu útliti eða furðulegum siðum fjarlægra þjóða. … Strax í fornöld kallaði Plútarkos hann því »föður lyganna«, og löngum hefur fólk lagt frekar litla trú á ýmislegt sem Heródótos greinir frá. Þetta breytir þó engu um afrek hans, sérstaklega í ljósi þess að þetta elsta rit sagnfræðinnar er jafnframt eitt það skemmtilegasta fyrr og síðar, stútfullt af heillandi frásögnum og lýsingum.“
Rannsóknir Heródótusar eru tilnefndar til Íslensku þýðingarverðlaunanna og um þýðinguna segir Baldur að hún sé „sannkallað þrekvirki“, „unnin af stakri smekkvísi og virðingu fyrir anda frumtextans.“