Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar voru veitt á samkomu í Snorrastofu í Reykholti á laugardaginn í áttunda sinn og þau hlaut að þessu sinni hin ástsæla skáldkona Vilborg Dagbjartsdóttir. Vilborg hefur gefið út sjö frumsamdar ljóðabækur auk ljóðasafns og úrvals en ljóðin eru bara lítill hluti af dýrmætu framlagi hennar til íslenskra bókmennta. Meðal annars hefur hún skrifað nokkrar barnabækur og þýtt fjölda bóka af ýmsu tagi. Síðasta ljóðabók hennar til þessa er Síðdegi sem kom út 2010 og fyrir ári kom ævisaga hennar út, Úr þagnarhyl, skráð af Þorleifi Haukssyni.
Ljóðaverðlaunin eru veitt annað hvert ár og skáldin sem hafa hlotið þau eru Hannes Sigfússon, Þuríður Guðmundsdóttir, Þorsteinn frá Hamri, Ingibjörg Haraldsdóttir, Þórarinn Eldjárn, Hjörtur Pálsson og Gerður Kristný, auk Vilborgar.