Jussi Adler Olsen verður á höfundakvöldi í Norræna húsinu 30.ágúst kl. 20.00 og eru allir velkomnir að koma og hlýða á danska krimmakónginn. Árni Matthíasson blaðamaður mun ræða við Jussi um verk hans og höfundaferil. Einnig mun höfundurinn lesa upp úr nýjustu bók sinni, Flöskuskeyti frá P, sem er nýkomin út í íslenskri þýðingu. Hægt verður að kaupa bókina í Norræna húsinu og fá hana áritaða af Jussi Adler-Olsen.
Léttar veitingar verða í boði danska sendiráðsins og ókeypis aðgangur.
Flöskuskeyti frá P er þriðja bók Jussi Adler-Olsen sem gefin er út á íslensku og hlaut hún Glerlykilinn sem besta norræna glæpasagan árið 2010. Konan í búrinu og Veiðimennirnir hafa áður komið út á Íslandi. Jussi Adler-Olsen á miklum vinsældum að fagna, bæði í Danmörku og annars staðar í heiminum. Verið er að gera kvikmyndir eftir bókum hans í Danmörku og hefur hann átt sæti á metsölulistum víða um heim. Danskt kvikmyndalið mun fylgja Jussi til Íslands þar sem verið er að gera heimildarmynd um kappann og ferðalög hans víða um heim til að fylgja bókum sínum eftir.