Verk eftir Jónínu Leósdóttur verður kynnt á alþjóðlegri ráðstefnu kvenleikskálda (WPIC) sem haldin verður í Stokkhólmi næstu dagana. Um 400 konur frá öllum heimshornum verða á ráðstefnunni og þar af eiga hundrað konur verk sem verða kynnt fyrir ráðstefnugestum. Jónína fer ásamt fríðu föruneyti frá Íslandi, þeim Hlín Agnarsdóttur, Völu Þórsdóttur og Sölku Guðmundsdóttur.
Fyrr á árinu kom bókin Léttir – hugleiðingar harmonikkukonu út eftir Jónínu og í kjölfarið hefur hún haldið úti facebook-síðu þar sem hún heldur áfram að hugleiða matarræði, megrunarkúra og hvernig maður heldur sér í kjörþyngd. Jónína ætlaði eingöngu að hafa síðuna opna í kringum útgáfu bókarinnar en viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og hefur hún verið beðin af fjölda kvenna að halda áfram að deila með þeim skemmtilegum fróðleiksmolum og hugleiðingum sínum.