Bókmenntaborgin Reykjavík og Borgarbókasafn taka höndum saman við Hinsegin daga með sýningu á teikningum Kristínar Ómarsdóttur í aðalsafni Borgarbóksafns í Tryggvagötu 15. Á síðasta ári sendi Kristín frá sér bókina Við tilheyrum sama myrkrinu – Af vináttu: Marylin Monroe og Greta Garbo. Þar er að finna sögur og teikningar hennar af þeim stöllum og nú birtast leikkonurnar tvíefldar á veggjum bókasafnsins.
Kristín Ómarsdóttir hefur fengist jöfnum höndum við ljóða- og skáldsagnagerð, smásagnaskrif og leikritun. Hún hefur meðal annars hlotið Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna fyrir ljóðabókina Sjáðu fegurð þína og Grímuverðlaunin fyrir leikritið Segðu mér allt.
Sýningin stendur út ágústmánuð.