Þessa dagana streyma handritin í hús og ljóst að lestrarhestar landsins munu hafa nóg að bíta og brenna í haust. Sérstaklega verður nóg fóður fyrir fantasíuþyrsta og skaffa höfundarnir Andri Snær Magnason, Hildur Knútsdóttir og Gunnar Theodór Eggertsson þeim hvert sitt æsispennandi ævintýrið. Þjóðsagnaverur – og aðrar verur – lifna við í lokabókinni í safna-þríleik Sigrúnar Eldjárn: Listasafninu og Gunnar Helgason heldur áfram sagnabálkinum um Jón Jónsson Þróttara og vini hans sem hófst með bókinni Víti í Vestmannaeyjum í fyrra. Að þessu sinni fer Jón á viðburðaríkt fótboltamót á Akureyri.
Nóg verður líka af innfluttu fóðri: Sagnabálkurinn um Eragon heldur áfram, svo og ævintýri Katniss úr Hungurleikunum og æsispennandi barátta Nicholasar Flamel og bandamanna hans til að bjarga heiminum frá glötun. Þá hefur nýr bókaflokkur um Nönnu norn göngu sína og unglingarnir fá um ýmislegt að hugsa eftir lestur bókarinnar Þrettán ástæður eftir Jay Asher.
Og þetta er aðeins brot af því sem koma skal!