Bragi Ólafsson

Braga fagnað

Ljóðabókin Rómantískt andrúmsloft eftir Braga Ólafsson sem kom út í vor getur á engan hátt talist „venjuleg“ ljóðabók en hefur þó fengið afar hlýlegar móttökur. Gagnrýnendur Morgunblaðsins og Fréttablaðsins gáfu henni ítarlega umfjöllun og fjórar stjörnur og fyrir nokkru greindi Fríða Björk Ingvarsdóttir bókina einstaklega skemmtilega í Víðsjá. Þar bendir hún meðal annars á hvað Bragi notar nærumhverfi sitt vel – hann býr við Suðurgötu í Reykjavík – um leið og hann lætur ekkert hamla hugarflugi sínu þaðan burt: „För ljóðmælandans hefst við Tjörnina, síðan berst leikurinn að Gullfossi, kaþólsku kirkjunni á Landakotstúni, um Sólvallagötu, Tjarnargötu, Hringbraut og Háaleitisbraut. En þótt sögusviðið sé kunnuglegt og jafnvel þjóðlegt þá er það langt frá því að vera heimóttarlegt. Bragi teflir þessum kunnuglega veruleika markvisst fram andspænis umheiminum í öllum sínum fjölbreytileika, Nýja Englandi, Murcia á Spáni, Ipswich í Massachusetts, Boston, Kína.“ Fríða Björk talar um „ómótstæðilegan hálfkæring og alvöruþrunginn húmor“ í ljóðum Braga og segir að lokum: „Enn og aftur er Bragi sem sagt kominn fram á sjónarsviðið með frábært verk. Djúphugulan texta og hressilega vakningu fyrir lífinu í öllum sínum stórkostlega en líka fánýta margbreytileika.“

INNskráning

Nýskráning