Eddukvæði I-II: Íslenzk fornrit
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 2014 | 935 | 11.990 kr. |
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 2014 | 935 | 11.990 kr. |
Um bókina
Ný og vönduð útgáfa eddukvæða í tveimur bindum með rækilegum skýringum og yfirgripsmiklum formála. Kvæðin eru 36 að tölu. Eddukvæðin hafa lengi verið talin meðal gersema heimsbókmenntanna. Í þeim birtast skáldlegar sýnir, stórbrotin tilfinningaátök, djúp speki og hárbeitt skop.
Eddukvæði eru flest varðveitt í einu litlu skinnhandriti frá 13. öld, sem venjulega er nefnt Konungsbók eddukvæða. Fáeinum kvæðum úr öðrum handritum er hér bætt við safnið eins og í flestum útgáfum svo að kvæðin eru alls 36. Eddukvæði vöktu athygli lærðra manna þegar Brynjólfur Sveinsson biskup í Skálholti eignaðist handritið á 17. öld. Hann sendi það síðan Danakonungi, og eftir að fyrstu kvæðin, Völuspá og Hávamál, voru gefin út með latneskum þýðingum 1665 urðu þau fræg um Evrópu. Síðan hafa eddukvæðin verið talin meðal gersema heimsbókmenntanna. Í þeim birtast skáldlegar sýnir, stórbrotin tilfinningaátök, djúp speki og hárbeitt skop í hnitmiðuðu en þó frjálslegu formi. Kvæðin eiga sér eldfornar rætur í trúarbrögðum norrænna þjóða og sögnum og kvæðum af hetjum allt frá öld þjóðflutninga. Varðveitta mynd hafa þau fengið á víkingaöld eða síðar.
Í fyrra bindi eru goðakvæði. Frægast þeirra er Völuspá um sköpun heimsins og tortímingu í ragnarökum. Hávamál eru lögð Óðni í munn og flytja einkum speki um líf í mannheimi. Önnur goðakvæði segja frá ævintýrum og átökum í goðheimum og eru oft gamansöm þótt ógn ragnaraka vofi yfir. Skírnismál segja eftirminnilega sögu um hvernig Freyr kemst yfir jötunmeyna Gerði með hótunum um ofbeldi, en Þrymskviða segir gamansögu um hvernig sjálfur Þór endurheimtir hamar sinn frá jötnum með því að bregða sér í kvengervi.
Í síðara bindi eru hetjukvæði sem segja sögur af fornfrægum hetjum eins og Sigurði Fáfnisbana, Brynhildi Buðladóttur, Guðrúnu Gjúkadóttur, frændliði þeirra og mágum. Hetjurnar eru glæstar og bera af öðrum, bæði konur og karlar, en heitar ástríður og ósveigjanleg sæmdarvitund steypa þeim í glötun. Meðal áhrifamestu og fornlegustu hetjukvæða er Atlakviða, sem segir frá því hvernig Atli Húnakonungur svíkur og drepur mága sína Gjúkasyni, en kona hans Guðrún hefnir þeirra svo grimmilega sem hugsast getur með því að drepa Atla og syni þeirra tvo. Í þessari útgáfu er texti kvæðanna birtur orði til orðs eins og hann er í handritum, en stafsetning samræmd með þeim hætti sem tíðkast í útgáfum félagsins. Hverri vísu fylgja rækilegar skýringar, og í yfirgripsmiklum formála er gerð grein fyrir efni kvæðanna og rótum þeirra í norðurevrópskri menningu. Einnig er fjallað um listræn einkenni hvers kvæðis.