Ásýnd Evrópu er óðum að breytast. Fjöldi innflytjenda hefur streymt til álfunnar á undanförnum áratugum. Ólíkir menningarheimar mætast. Hefðbundin vestræn gildi eiga víða undir högg að sækja. Jafnvel á Norðurlöndum blasir við alvarlegur vandi. Í mörgum tilvikum hefur aðlögun misheppnast: gettómyndun, aukið trúarofstæki, kynjamisrétti, ofbeldi gegn konum og börnum, kynfæralimlestingar, heiðursmorð og hjónabönd þar sem ungt fólk er þvingað til að eiga maka sem eru sóttir til upprunalandsins. Allt eru þetta vandamál sem nágrannalönd okkar glíma nú við í síauknum mæli og afleiðingar innflytjendastefnu undanfarinna áratuga. Í þessari bók er einkum fjallað um þann vanda sem frændur okkar Norðmenn standa frammi fyrir. Jafnframt er farið yfir sviðið í öðrum Vestur-Evrópulöndum. Gríðarmikil heimildavinna liggur að baki bókinni. Henni er ekki síst ætlað að vinna bug á fordómum sem koma í veg fyrir opna og gagnrýna umræðu um innflytjendamál. Stundum er sagt að þróunin á Íslandi sé a.m.k. tíu árum á eftir því sem gerist í nágrannalöndunum. Margt bendir til að þessi bók lýsi vandamálum sem við Íslendingar munum þurfa að takast á við fyrr en síðar.