Ómur óbyggðanna – Feral Attraction
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Mjúk spjöld | 2020 | 235 | 5.890 kr. |
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Mjúk spjöld | 2020 | 235 | 5.890 kr. |
Um bókina
Þann 27. október 2009 var hópi útigöngufjár, sem hafði dvalið á Tálkna á Vestfjörðum í nær þrjá áratugi, smalað af fjallinu og slátrað án tafar. Þrátt fyrir margar tilraunir í gegnum tíðina til að ná fénu af fjallinu hafði því tekist í þetta langan tíma að komast undan smölun, ganga sjálfala og vera sjálfbjarga í því hrjóstruga landslagi sem þarna er. Smölunin og síðan endanleg hreinsun alls fjár af fjallinu í janúar 2010 fékk töluverða umfjöllun í fjölmiðlum, sem leiddi til skiptra skoðana meðal almennings í landinu.
Bókin tengist myndlistarverki Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson, sem unnið var út frá atburðunum á Tálkna. Verkið var fyrst sýnt árið 2016 í Listasafni ASÍ í Reykjavík og svo aftur 2018/19 í Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti í Örlygshöfn. Um vorið 2010 fóru listamennirnir í vettvangsferð til Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Þau gengu á Tálkna og tóku viðtöl við ýmsa aðila sem á mismunandi vegu höfðu komið að málinu í gegnum tíðina.
Í bókinni eru sett fram ólík sjónarmið og fjallað um flókið samspil atriða. Sjónum er m.a. beint að tilverurétti dýra, kerfisvaldinu, fjölmiðlafári, gagnavörslu og tilfinningahlöðnum viðbrögðum almennings. Ennfremur er hugað að umhverfis- og pólitískum straumum sem lágu að baki atburðinum, sem nú nær 10 árum seinna má segja að tilheyri þjóðsögum staðarins.
Hér er varpað fram róttækum og ögrandi spurningum varðandi tengsl okkar við dýr og það umhverfi sem við deilum með þeim, ekki bara á Íslandi heldur í veröldinni allri. Þótt verkið sjálft styðjist við óhefðbundnar aðferðir myndlistarinnar er hér að finna hrífandi og áhugavert efni sem nýtir sér ímyndunarafl og tilgátur jafnt á við nákvæmar rannsóknir vísindanna.