Á dögunum var tilkynnt um hvaða tíu bækur eru tilnefndar til Viðurkenningar Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, fyrir árið 2019. Viðurkenningarráð Hagþenkis stendur að valinu, en það skipa þau Ásta Kristín Benediktsdóttir, Kolbrún S. Hjaltadóttir, Lára Magnúsardóttir, Snorri Baldursson og Þórólfur Þórlindsson.
Borgarbókasafn og Hagþenkir standa fyrir bókakynningu fyrir almenning 15. febrúar kl. 13 í Borgarbókasafninu í Grófinni, þar sem höfundarnir kynna bækurnar. Viðurkenningin verður veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í byrjun mars. Verðlaunin nema 1.250.000 kr.
Eftirfarandi Forlagshöfundar og bækur eru tilnefnd. Með fylgir umsögn viðurkenningarráðsins:
- Andri Snær Magnason. Um tímann og vatnið. Mál og menning. „Einstaklega vel skrifuð og áhrifarík bók sem fléttar umfjöllun um loftslagsbreytingar af mannavöldum við persónulega reynslu, fræði og alþjóðlega umræðu á frumlegan hátt.“
- Árni Einarsson. Tíminn sefur. Fornaldargarðarnir miklu á Íslandi. Mál og menning. „Í máli og glæsilegum myndum er sjónum beint að lítt þekktum leyndardómi Íslandssögunnar, fornaldargörðunum miklu, á ljósan og lifandi hátt.“
- Margrét Tryggvadóttir. Kjarval. Málarinn sem fór sínar eigin leiðir. Iðunn. „Í bókinni er saga manns og aldarfars tvinnuð saman við myndlist af sérstakri næmni sem höfðar til fólks á öllum aldri.“
- Ragnheiður Björk Þórsdóttir. Listin að vefa. Vaka-Helgafell. „Bókin leiðir lesendur inn í undurfallegan heim vefiðnar og veflistar. Skýr framsetning á flóknu efni, studd frábærum skýringarmyndum.“