75 ára afmæli Sigurðar Pálssonar

Sigurður Pálsson, einn fremsti rithöfundur Íslands, hefði orðið 75 ára þann 30. júlí. Sigurður sinnti ýmsum störfum um ævina. Hann var fréttaritari, leiðsögumaður, kennari og vann við sjónvarp og kvikmyndir en einkum fékkst hann þó við ritstörf og þýðingar. Hann var forseti Alliance Française um skeið og formaður Rithöfundasambands Íslands. Síðustu æviárin kenndi hann ritlist við Háskóla Íslands.

Eftir Sigurð liggja fjölmörg verk en endurminningabækurnar, þar sem hann teflir á sinn einstaka hátt saman lifandi fortíðarmyndum, hugleiðingum og hugmyndum sem mótuðu hann, eru nú fáanlegar sem hljóðbækur í lestri Hannesar Óla Ágústssonar. Fyrst kom út Minnisbók þar sem Sigurður rekur minningar sínar frá Frakklandi á árunum 1967‒1982. Því næst sendi hann frá sér Bernskubók sem hann byggir á uppvaxtarárum sínum í Norður-Þingeyjarsýslu frá fæðingu til fjórtán ára aldurs. Táningabók er síðasti hluti endurminningaþríleiksins og hún hlaut ekki síðri viðtökur en fyrri bækurnar tvær, enda einstaklega heillandi á lýsing á því hvernig sveitadrengurinn varð það skáld sem sem seinna varð þjóðþekkt.

Fyrsta ljóðabók Sigurðar, Ljóð vega salt, kom út 1975. Hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2007 fyrir Minnisbók og hafði áður verið tilnefndur til þeirra fyrir Ljóðlínuskip og Ljóðtímaleit.

Sigurður skrifaði einnig skáldsögur, leikrit, sjónvarps- og útvarpshandrit og óperutexta, og sendi að auki frá sér fjölda þýðinga. Hann hlaut Grímuverðlaunin árið 2008 fyrir leikverkið Utangátta.

Sigurður var borgarlistamaður Reykjavíkurborgar á tímabilinu 1987‒1990, honum var veittur riddarakross orðu lista og bókmennta (Chevalier de l‘Ordre des Arts et des Lettres) af menningarmálaráðherra Frakklands árið 1990 og Frakklandsforseti sæmdi hann riddarakrossi frönsku heiðursorðunnar (Chevalier l‘Ordre National du Mérite) árið 2007. Hann hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2016. Á nýársdag 2017 var Sigurður sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til íslenskra bókmennta og menningar og í maí það ár veittu Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands honum jafnframt Maístjörnuna fyrir ljóðabókina Ljóð muna rödd.

Sigurður lést 19. september 2017.

INNskráning

Nýskráning