Með góðu eða illu er talin besta saga Elsebeth Egholm um rannsóknarblaðakonunu Dicte Svendsen. Sjálf er Egholm ókrýnd glæpasagnadrottning Dana og haslar sér nú völl í sjónvarpi; meðal annars er unnið að gerð sjónvarpsþátta eftir bókum hennar.
Egholm á greinilega fullt erindi til íslenskra lesenda þar sem bókin hefur fengið mjög góða dóma, bæði hjá gagnrýnendum og krimmalesendum sem hafa lýst yfir ánægju sinni með bókina.
Birst hafa tveir dómar um bókina og í báðum tilfellum fær bókin fjórar stjörnur. Í dómi Ingveldar á Morgunblaðinu er frásagnargáfa Egholm sögð einstök og að þetta sé „krimmi sem fær mann til að hugsa.“ Í dómi Fréttatímans segir Páll Baldvin að Egholm takist að „steypa saman í einn vef býsna mörgum álitamálum“ og að sagan sé þrælspennandi.
Bókin hefur einnig fengið glimrandi dóma erlendis, fimm stjörnur frá Berlingske tidende, Børsen, Ekstra bladet og BT.