Þríleikur Suzanne Collins um Hungurleikana er orðin mest selda sería allra tíma á netversluninni Amazon.com. Þar með hafa Hungurleikarnir tekið fram úr bókunum um Harry Potter. Í Hungurleikjaseríunni eru aftur á móti aðeins þrjár bækur á móti sjö bókum um galdradrenginn, þannig að salan hefur verið gífurleg – bæði á prentuðum bókum og rafrænu formi.
Nýlega var serían valin á lista yfir hundrað bestu ungmennabækur allra tíma. Hungurleikarnir höfnuðu í öðru sæti á listanum en á þessum lista er að finna bækur eins og To kill a Mockingbird og Farenheit 451.
Fyrstu tvær bækurnar í seríunni, Hungurleikarnir og Eldar kvikna, eru komnar út á íslensku og fást í innbundinni útgáfu, kilju og rafbók. Þriðja bókin, Hermiskaði, er væntanleg á íslensku um mánaðarmótin.