Steinar Bragi

„… engum er hlíft og engu eirt“

Kata, nýjasta skáldsaga Steinars Braga, hefur vakið gríðarlega athygli síðan hún kom út fyrir þremur vikum. Í dag fær hún fjögurra stjörnu dóm hjá Önnu Lilju Þórisdóttur í Morgunblaðinu þar sem segir meðal annars: „Og hvernig bók er svo Kata? Er hún hefndardrama í anda Hamlets? Spennutryllir, eins og segir í auglýsingunum um bókina eða kannski hversdagssaga úr bláköldum veruleikanum? Kata er þetta allt og meira til. Ofbeldi gagnvart konum og það sinnuleysi sem hefur verið ríkjandi gagnvart þessum málaflokki er gegnumgangandi. En þetta er líka saga um glæpi, rannsókn þeirra og þau áhrif sem glæpir hafa. Þetta er líka saga um fólk í leit að sjálfu sér. Kraftmikil bók sem æðir áfram með vænum skammti af þjóðfélagsrýni og tekur lesandann með sér í ferð þar sem engum er hlíft og engu eirt.“

Steinunn Rögnvaldsdóttir skrifar um bókina á vefritið knuz.is og veltir meðal annars fyrir sér hvort bók um þetta málefni hefði hlotið jafngóðar viðtökur væri hún skrifuð af konu. Steinunn varar við því að umfjöllunin gefi miklar upplýsingar um söguþráðinn og því er þeim sem vilja láta bókina koma sér á óvart ráðlagt að bíða með lesturinn en hrifningin leynir sér ekki: „Ég hreifst fyrst og fremst af Kötu fyrir tvennt. Í fyrsta lagi hvað hún var vel skrifuð, því það er hún sannarlega. Í öðru lagi hvað umfjöllunin um kynferðisofbeldi er grípandi og svakaleg og hvernig það er sett í samfélagslegt samhengi. Ég hef lesið og heyrt nóg af sögum þar sem þolendur burðast með afleiðingar ofbeldisverka án þess að vandamálið sé rætt í stærra samhengi. Ég vil lesa fleiri bækur eins og Kötu, sem að fjalla um kynferðisofbeldi sem stórkostlegt samfélagslegt vandamál og sem afsprengi ójafnrar valdastöðu kynjanna, ekki sem persónulegan harmleik. Við þurfum að tala meira um kynferðislegt ofbeldi. Við þurfum að tala um hvernig það er ógn við okkar samfélag, við konur.“

Að lokum verður að minnast á magnaðan dóm Kolbrúnar Björtu Sigfúsdóttur fyrir Starafugl.is en þar segir hún meðal annars: „Það sem eftir stendur er stíll sem er svo yfirgengilegur í ljóðmáli sínu, svo uppáþröngvandi í hrottafengnu myndmálinu að erfitt er að standast lömunarvald hans. Eins og smjörsýra smýgur textinn inn í blóðrás lesandans og lamar hann af óhugnaði, gerir hann að sljóvguðu vitni að því ofbeldi sem á sér stað og ýtir loks við honum eins og til að spyrja „hvað ætlaru að gera í þessu?“. Eftir situr maður/kona með rauða bók í fanginu eins og blóðugar nærbuxur, einhverskonar sönnunargagn um glæpinn sem hefur verið framinn … Nákvæmni höfundar í lýsingum sínum á samfélagi sem er rotið er aðdáunarverð, Ísland er þarna, ljóslifandi en samt svo glans. Röð óaðfinnanlegra ljósmynda. Eftirlíking af eftirlíkingunni sem við köllum samfélag. Margir myndu segja að bók gæti ekki beðið um að vera meira.“

Miklu fleiri hafa lofað Kötu, í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum, undanfarnar þrjár vikur. „Ótrúlega vel gert,“ sagði Friðrika Benónýsdóttir í Kiljunni í samtali við Þorgeir Tryggvason og Egil Helgason sem sagði bókina „feykilega kröftuga“.

INNskráning

Nýskráning